Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Leikið til úrslita á Íslandsmótinu í holukeppni í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Golfsamband Íslands - golf.is

Leikið til úrslita á Íslandsmótinu í holukeppni í dag

20.06.2021 - 12:28
34. Íslandsmótið í holukeppni í golfi fer fram á Þorláksvelli í Þorlákshöfn um helgina. Undanúrslit voru spiluð í morgun bæði í karla- og kvennaflokki og ljóst hverjir það verða sem mætast í úrslitunum seinna í dag.

Í karlaflokki mættust annars vegar Andri Már Óskarsson úr Golfklúbbi Selfoss og Lárus Ingi Antonsson úr Golfklúbbi Akureyrar, og hins vegar Andri Þór Björnsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Sverrir Haraldsson úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar. 

Lárus Ingi hafði betur gegn Andra Má í spennandi viðureign þar sem kylfingarnir skiptust á að vera með yfirhöndina. Í hinni viðureigninni sló Sverrir Andra Þór út. Lárus Ingi og Sverrir mætast því í úrslitum mótsins en ljóst var fyrir undanúrslitin í dag að nýtt nafn færi á verðlaunagripinn í karlaflokki þar sem þeir sem léku til undanúrslita hafa ekki áður sigrað á mótinu. 

Í kvennaflokki vann Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Golfklúbbnum Keili Huldu Clöru Gestsdóttur úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar nokkuð örugglega. Í hinni undanúrslitaviðureigninni hafði Eva Karen Björnsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur betur gegn Helgu Signýju Pálsdóttur úr sama klúbbi. 

Guðrún Brá og Eva Karen mætast þar af leiðandi í úrslitaviðureigninni í kvennaflokki og Guðrún Brá hefur tækifæri á að bæta við sig öðrum Íslandsmeistaratitli í holukeppni en hún sigraði mótið árið 2017. 

Í holukeppni leika tveir kylfingar eftir útsláttarfyrirkomulagi. Á Íslandsmótinu eru 18 holur spilaðar og sá kylfingur sem fer hverja holu á færri höggum telst hafa unnið hana. Sá stendur svo uppi sem sigurvegari sem vinnur fleiri holur. Ríkjandi Íslandsmeistarar í holukeppni, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Axel Bóasson, voru ekki meðal keppenda á mótinu í ár.  

Keppni um þriðja sætið í karlaflokki hefst klukkan 12:30 og klukkan 12:40 í kvennaflokki. Úrslitaviðureignin í karlaflokki verður spiluð klukkan 12:50 og úrslitaviðureignin í kvennaflokki verður ræst stuttu síðar klukkan 13. Hægt er að fylgjast með framvindu mótsins á heimasíðu Golfsambands Íslands. 

Tengdar fréttir

Golf

Undanúrslitin klár á Íslandsmótinu í holukeppni