Hannesarholti lokað

Mynd: RÚV/Vilhjálmur Þór Guðmunds / RÚV/Vilhjálmur Þór Guðmunds

Hannesarholti lokað

20.06.2021 - 19:15

Höfundar

Menningasetrinu Hannesarholti verður lokað á morgun. Fjármagn er á þrotum og ekki er lengur hægt að reka húsið án opinberra styrkja. Forstöðumaðurinn segir að rekstrarform stofnunarinnar hafi útilokað hana frá covid-styrkjum.

Frá árinu 2013 hefur sjálfseignarstofnunin Hannesarholt haldið úti menningarsetri í sögufrægu húsi Hannesar Hafstein. Nú er fjármagn á þrotum og þegar skellt verður í lás í kvöld verður það að óbreyttu til frambúðar.

„Hannesarholt hefur frá upphafi verið rekið með stuðningi okkar stofnenda en það verður ekki lengra komist. Það er svolítið sérkennilegt að Hannesarholt er sjálfseignarstofnun, ekki rekin í hagnaðarskyni. Væri hún einkahlutafélag, rekin í hagnaðarskyni, þá hefði komið covid-styrkur upp á yfir 20 milljónir. Þannig að manni finnst þetta skjóta svolítið skökku við,“ segir Ragnheiður Jóna Jónsdóttir, forstöðumaður Hannesarholts.

Borgin sagði nei en beðið eftir ríkinu

Starfsfólki Hannesarholts var sagt upp á dögunum. Ragnheiður segir að það hafi verið sársaukafull ákvörðun. Hún vonast til að ákvörðunin um að loka sé ekki endanleg en það liggur fyrir að ekki er hægt að halda starfseminni áfram án stuðnings hins opinbera. „Við höfum verið í samtali við stjórnvöld í langan tíma. Borgin hefur sagt nei en menntamálaráðuneytið og forsætisráðuneytið hefur sýnt vilja þannig að ég verð að vera vongóð þó það sé voðalega erfitt á þessum síðustu dögum.“

Skilja eftir spor sem skipta máli

Listviðburðir á þeim tíma sem húsið hefur verið opið skipta hundruðum og má segja að fjölbreytileikinn hafi ráðið ríkjum. Þarna hafa verið haldnir tónleikar, hönnunarsýningar, myndlistarsýningar og stórstjarnan Björk hefur reglulega þeytt þar skífum. Þarna hefur fólk haldið sínar fyrstu sýningar, þær síðustu og jafnvel þeirra einu.

Ragnheiður telur markmiðið að tengja saman fortíð, nútíð og framtíð hafi tekist. „Ég er ótrúlega þakklát fyrir að okkur tókst þetta. Ef Hannesarholt er búið að vera þá allavega veit ég að við skiljum eftir spor sem skipta máli. Ef samfélagið vill að Hannesarholt sé til að þá getur það haldið áfram að vera til. Húsið verður hérna áfram, það verður ekkert rifið.“

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Hannesarholt í viðræðum við hið opinbera um reksturinn

Menningarefni

Heldur tónleika til að styrkja Hannesarholt