Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bjartviðri með köflum en dálítil væta austantil

20.06.2021 - 07:16
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Veðurstofan spáir hægri vestlægri eða breytilegri átt, þremur til tíu metrum á sekúndu og bjartviðri með köflum. Dálítil væta verður þó á austanverðu landinu. Gasmengun úr Geldingadölum gæti borið yfir byggð í dag og á morgun.

Eftir hádegi má reikna með skúrum víða um land, einkum inn til landsins. Hiti verður á bilinu sex til fjórtán stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Í nótt snýst í vaxandi suðvestanátt og þykknar upp, víða sunnan 10 til 15 metrar á sekúndu á morgun en heldur hvassara í vindstrengjum vestanlands. Á Snæfellsnesi gætu myndast erfiðar aðstæður fyrir ferðalanga með aftanívagna.

Rigning verður í flestum landshlutum og sumsstaðar meira að segja talsverð rigning vestantil. Norðaustan til verður hægari vindur og þurrt fram á annað kvöld en þá tekur að lægja og styttir upp vestra. 

Við gosstöðvarnar í Geldingadölum er spáð vestan 5 til 10 metrum á sekúndu síðdegis í dag. Þá sækir gasmengun til austurs og gæti hennar orðið vart í Þorláksshöfn.

Með kvöldinu snýst í suðvestan fimm til tíu sem þá feykir gasinu til norðausturs og þá gæti það borist yfir á höfuðborgarsvæðið aðfaranótt mánudags.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV