Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bensín og list í bland

Mynd: Menningin / RÚV

Bensín og list í bland

20.06.2021 - 10:00

Höfundar

„Hérna erum við svolítið að kasta listinni til fólksins, til þeirra sem koma hérna að dæla bensíni og ætluðu sér alls ekki að fara á myndlistarsýningu lenda síðan bara á miðri sýningu,“ segir Sigurður Atli Sigurðsson, annar eigenda Y gallerís sem opnaði nýverið í bensínstöð í Hamraborginni. 

Sýningarrýmið er harla óvenjulegt hvað flest snertir; staðsetning, arkitektúr og hluti viðtakendahóps eru ný af nál. Olga Lilja Ólafsdóttir eigandi segir ferlið frá hugmynd að opnun hafa verið bratt og hratt. „Við Sigurður Atli höfum unnið svolítið saman í myndlist og settum meðal annars upp jólasýninguna í Ásmundarsal ásamt öðru góðu fólki. Síðan höfum við haldið áfram samtali um myndlistina og dag einn þá hringdi Sigurður Atli í mig og sagðist vera með algjörlega frábæra hugmynd, hann hefði fundið flottasta sýningarrými á Íslandi. Ég var mjög spennt að heyra hvaða rými það væri nú og þá sagði hann að það væri Olísbensínstöðin í Hamraborg, að breyta henni í listagallerí. Ég var svona tæplega sannfærð í byrjun en tilbúin að hlusta ögn lengur. Síðan leiddi eitt af öðru og við settum okkur í samband við Olísmenn og fengum að hitta þá hérna í Hamraborginni. Þeim leist svona líka vel á það og voru tilbúnir að lána okkur rýmið í hálft ár,“ segir hún. 

Y útumallt

Nafn sitt dregur gallerýið út ýmsum áttum. „Ypsilon er úr Schmid-litakerfinu, þetta er yellow, eins og bensínstöðin er á litinn, en síðan er þetta líka að bílar skráðir í Kópavogi eru merktir Y. En svo er þetta líka bara nógu opið, okkur fannst það mjög mikilvægt að starfsemi gallerísins gæti skilgreint svolítið nafnið,“ segir Sigurður Atli. 

Hverful hversdagsaugnablik

Fyrsti listamaður sem sýnir í Y galleríi er Una Björg Magnúsdóttir en sýning hennar nefnist Hæg sena og samanstendur af sex skúlptúrum og einu málverki. Ég sótti innblástur í stólbríkur, endagaflana á kirkjubekkjum, þegar maður gengur inn kirkjugólfið þá eru svona útskornar fjalir. Ég tók þessi form og setti á þau mínar eigin myndir. Hversdagsleg augnablik sem maður kannski vill ná að halda utan um en tekst ekki. Hér er til dæmis hálsfesti að slitna, ilmur að sleppa úr flösku, skoppandi kúla og daggardropar,“ segir Una Björg. 

Sýningin Hæg sena stendur til 3. júlí. Nánari upplýsingar má finna hér og hér.