Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Armenía: Flokkur forsætisráðherrans með yfirburðastöðu

20.06.2021 - 22:55
epaselect epa09287666 Armenian Prime Minister Nikol Pashinyan casts his ballot at a polling station in Yerevan, Armenia, 20 June 2021. Armenians headed to the polls for early parliamentary election in which candidates Prime Minister Nikol Pashinyan and former President Robert Kocharyan are considered the favorites. The early parliamentary election caused by a political crisis in the country after defeat in the Nagorno-Karabakh conflict with Azerbaijan.  EPA-EFE/NAREK ALEKSANYAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fyrstu tölur í þingkosningum í Armeníu benda til öruggs sigurs Borgarasambandsins, flokks forsætisráðherrans Nikols Pashinyan. Um 30% atkvæða hafa verið talin en talið er að um helmings þátttaka hafi verið í kosningunum.

Flokkurinn er með 58,5% prósent atkvæða og með mikið forskot á flokk forsetans fyrrverandi Robert Kocharyan sem er með 18,5%. Aðeins einn flokkur annar er með yfir 5% fylgi þegar þrjátíu prósent atkvæða hafa verið talin. 

Pashinyan hefur þegar lýst yfir sigri og sagði í ræðu í kvöld að íbúar Armeníu hefðu veitt honum og flokknum skýrt umboð til að leiða landið áfram. Pashinyan varð forsætisráðherra eftir mikil mótmæli í landinu árið 2018. 

Hann hvetur stuðningsfólk sitt til að safnast saman á aðaltorgi höfuðborgarinnar Jerevan á morgun, mánudag.

Robert Kocharyan hefur lýst yfir efasemdum um réttmæti úrslitanna og að hann muni ekki viðurkenna sigur Pashinyans fyrr en úrslitin hafi verið rannsökuð.

Í yfirlýsingu segir að hundruð atvika á kjörstöðum sýni svo ekki verði um villst að svik hafi verið í tafli og því ekki hægt að treysta niðurstöðunum.

Hitabylgja er í Armeníu en þrátt fyrir það er kosningaþátttaka um 50% af þeim 2,6 milljónum sem kosningarétt hafa. Eftirlitsmenn með kosningunum segja það meira en búist hafi verið við.

Stjórnarkreppa ríkti í landinu frá undirritun vopnahléssamkomulags við Asera eftir átökin um yfirráðin í hinu umdeilda fjallahéraði, Nagorno-Karabakh. Stríðinu lauk í nóvember á síðasta ári.

Mikið mannfall varð í liði beggja ríkja en Pashinyan féllst á samkomulag sem varð til þess að Armenar þurftu að láta ef hendi nokkurn hluta héraðsins sem barist hafði verið um.

Pashinyan lá undir miklu ámæli vegna samkomulagsins og reglulega var efnt til mótmælafunda gegn honum og stjórn hans. Svo fór að hann sagði af sér í lok apríl og boðaði til kosninga sem háðar voru í dag. 

Fréttin hefur verið uppfærð.