Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Alls ekki óþægilegt að hafa Harald á lista

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - RÚV/Bragi Valgeirsson
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hlaut afgerandi kosningu í fyrsta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Haraldur Benediktsson, sem einnig sóttist eftir að leiða listann, segist standa við orð sín um að það sé ekki gott fyrir nýjan oddvita að hafa gamlan oddvita í aftursætinu en ætlar þó ekki að taka ákvörðun um framtíð sína fyrr en hann hefur rætt við kjörnefnd og forystu flokksins.

Þórdís Kolbrún fékk 1.347 atkvæði í fyrsta sætið. Haraldur sem einnig sóttist eftir að leiða listann fékk 1.061 atkvæði í fyrsta til annað sæti. Í þriðja sæti varð Teitur Björn Einarsson en hann var í öðru sæti eftir að fyrstu tölur höfðu verið birtar.

Þórdís Kolbrún var að vonum ánægð með niðurstöðuna. „Ég fann auðvitað fyrir miklum og breiðum stuðningi hvaðanæva að úr kjördæminu en þetta voru samt þannig tölur að ég gat látið mig dreyma um svona afgerandi stuðning en ég þorði nú ekki að gera ráð fyrir því.“

Haraldur segir samsetningu listans óheppilega

Haraldur segir í samtali við fréttastofu að hann standi við fyrri orð sín um að ekki geti verið gott fyrir nýjan oddvita að hafa þann gamla í aftursætinu. Hann ætlar þó ekki að gefa út neinar yfirlýsingar um framtíð sína fyrr en hann hefur rætt við kjörnefnd og forystu flokksins. Haraldur segir að að það veki athygli sína að þrír af Vesturlandi sunnanverðu séu í fjórum efstu sætunum, það sé óheppileg samsetning.

Ræðir við Harald í dag

Þórdís segir af og frá að það sé óþægilegt að hafa Harald í öðru sætinu. „Alls ekki. Við Haraldur höfum unnið mjög vel saman í mörg ár og höfum að mínu og okkar mati verið ansi gott teymi fyrir þetta kjördæmi. Það væri ekki þannig að það væri erfitt að burðast með hann í aftursætinu heldur væri það þannig að við yrðum hlið við hlið að vinna að málefnum kjördæmisins og landsins alls í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.“

Þórdís Kolbrún mun ræða við Harald síðar í dag. Spurð að því hvort hún muni leggja að Haraldi að taka annað sætið á listanum svarar hún: „Sjáum bara hvað setur. Hann þarf auðvitað að ákveða þetta í sínu hjarta.“

Atkvæði í prófjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi verða talin í dag og úrslitin tilkynnt síðdegis.