Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Áfall að vera látinn fara eftir þrjátíu ára starf

Mynd: RÚV / RÚV
Starfsmaður hjúkrunarheimilisins Hlíðar á Akureyri, sem sagt var upp á föstudag eftir þrjátíu ára starf, segir uppsögnina hafa verið áfall. Hann telur að uppsagnirnar á heimilinu hljóti að bitna á þjónustunni við íbúa. 

„Þær héldu að þetta væri aprílgabb“

Akureyrarbær skilaði rekstri öldrunarheimila Akureyrar til ríkisins í fyrra, eftir að hafa greitt með þeim árum saman, reksturinn var boðinn út og í vor tók einkafyrirtækið Heilsuvernd hjúkrunarheimili hann yfir. Á föstudag var 13 starfsmönnum sagt upp í hagræðingarskyni, meðalaldur þeirra var 54 ár. Karl Fredrik Jónsson, fyrrverandi matráður á heimilinu, var einn þeirra sem fékk uppsagnarbréfið á föstudag. „Það kemur svolítið svona áfall fyrir mann. Ég fékk að kveðja starfsfólkið og þær héldu fyrst að þetta væri aprílgabb. Ég  labbaði bara út eftir klukkutíma, með mitt dót, þar lauk mínum starfsferli. Ég er búinn að skila mínu ævistarfi að ég held bara þokkalega vel, hef skilað góðu búi.“

Hann segir samskiptin við Heilsuvernd hafa verið kurteisleg en hann hafi ekki fengið neinar skýringar á uppsögninni.

Telur bæinn hafa gert stór mistök

Fyrirtækið hélt fund með starfsfólki við yfirtökuna í vor. Karl Fredrik segir að þar hafi forsvarsmenn þess fullvissað starfsfólk um að það mætti vera rólegt. Hann lagði ekki trúnað á þau orð. „Auðvitað fara elstu og dýrustu starfsmennirnir sem hafa mestu reynsluna fyrst, og ef þeir geta látið hina hlaupa tíu sinnum hraðar þá er það dálítið sérstakt.“  Hann telur bæinn hafa gert stór mistök með því að skila rekstrinum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Karl Fredrik

Vonar að hann þurfi aldrei að nýta þjónustuna

Karl Fredrik sér ekki fram á að fara aftur út á vinnumarkaðinn. „Ég efast um að neinn vilji fá 65 ára gamlan mann í vinnu.“

En þú sjálfur, 65 ára íbúi á Akureyri og mögulega verðandi íbúi þarna einhvern tímann, hvernig líst þér á það?

„Ég vona að ég verði bara löngu farinn áður en ég þarf að nýta þessa þjónustu því hún er ekki á uppleið, heldur frekar á niðurleið.“

odinnso's picture
Óðinn Svan Óðinsson
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV