Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Undanúrslitin klár á Íslandsmótinu í holukeppni

Mynd með færslu
 Mynd: GSÍ

Undanúrslitin klár á Íslandsmótinu í holukeppni

19.06.2021 - 19:52
Íslandsmótið í holukeppni í golfi fer fram um helgina í Þorlákshöfn. Þar leika kylfingar eftir útsláttarfyrirkomulagi þar til einn sigurvegari stendur eftir í hverjum flokki. 

 

Riðlakeppni Íslandsmótsins lauk í morgun og við tók átta kvenna og manna úrslit. Eva Karen Björnsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur hafði betur á móti Önnu Júlíu Ólafsdóttir. Helga Signý Pálsdóttir lék vel í einvígi sínu við Karenu Lind Stefánsdóttur og vann það nokkuð örugglega. Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili, Íslandsmeistari síðustu þriggja ára í höggleik hafði betur á móti Andreu Ýr Ásmundsdóttur í dag og tryggði sér því sæti í undanúrslitum. Hulda Clara Gestsdóttir vann svo góðan sigur á Örnu Rún Kristjánsdóttur.

Hjá körlunum vann Andri Már Óskarsson úr Golfklúbbi Selfoss sveitunga sinn Aron Emil Gunnarsson frekar örugglega. Lárus Ingi Antonsson úr Golfklúbbi Akureyrar sló Birgi Björn Magnússon úr Keili út. Andri Þór Björnsson, GR sigraði Kristján Þór Einarsson úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Sverrir Haraldsson úr sama klúbbi vann svo Jóhannes Guðmundsson og komst þannig í undanúrslit. Undanúrslitin verða leikin í fyrramálið og úrslitaeinvígin hefjast svo í kringum klukkan eitt.