Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segir þrælahald erfðasynd Bandaríkjanna

19.06.2021 - 19:21
Bandaríkjaforseti ásamt Opal Lee, baráttukonu fyrir því að 19. júní yrði frídagur. - Mynd: EPA-EFE / SIPA USA POOL
Bandaríkjaþing hefur samþykkt að 19. júní verði framvegis opinber frídagur. Bandaríkjamenn af afrískum uppruna hafa lengi minnst afnáms þrælahalds þennan dag.

Það var 19. júní 1865 sem þrælar í Texas heyrðu fyrst af því að þrælahald hefði verið afnumið. Fréttirnar bárust þeim ekki fyrr en tveimur og hálfu ári eftir að tilskipun Abrahams Lincoln, þáverandi forseta, um afnám þrælahalds tók gildi. Fólkið í Texas var í hópi þeirra síðustu til að fá fregnirnar. 

Dagurinn gengur undir ýmsum nöfnum, svo sem Frelsisdagurinn og Juneteenth. Síðara nafnið er sambland af orðunum June og nineteen. Lynda Greene, baráttukona fyrir kynþáttajafnrétti, segir að Bandaríkjamenn af afrískum uppruna hafi minnst afnáms þrælahalds þennan dag nær allt síðan árið 1865 og að það sé gleðiefni að nú ætli þjóðin öll að taka þátt. 

Forsetinn segir þetta dag til að minnast siðferðissmánar

„Þessi dagur hefur djúpstæða merkingu og mikinn kraft, þetta er dagur til að minnast þeirrar siðferðissmánar og hræðilega tolls sem þrælahald tók af landinu og tekur enn, þess sem ég hef lengi kallað erfðasynd Bandaríkjanna,“ sagði Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, í ræðu þegar hann skrifaði í vikunni undir lög um nýja opinbera frídaginn. 

Heimili fjölskyldunnar brennt 19. júní 1939

Árum saman hefur verið barist fyrir því að 19. júní verði opinber frídagur í Bandaríkjunum. Ein helsta baráttukonan er Opal Lee. Dagsetningin er greipt í huga hennar því að 19. júní árið 1939, þegar hún var tólf ára, kveiktu hvítir öfgamenn í heimili fjölskyldu hennar í Fort Worth í Texas. Lögreglan horfði á húsið brenna án þess að aðhafast nokkuð. Hún gleðst yfir tímamótunum eins og margir og var viðstödd þegar forseti og varaforseti Bandaríkjanna fögnuðu áfanganum í fyrradag. „Ég er einu skrefi frá því að stíga helgan dans. Um leið og þingið samþykkir frumvarpið fer ég út á götu að dansa. Ég er svo glöð að ég veit ekki hvað skal gera,“ sagði Lee í viðtali í vikunni. 

Þrátt fyrir þennan áfanga minnir baráttufólk á að enn sé mikið verk óunnið í að útrýma kynþáttamisrétti í landinu.