Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Páli sagt hafnað í kjördæmisráðinu

Mynd með færslu
 Mynd:
Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hafnaði tillögu um að Páll Magnússon, fráfarandi oddviti flokksins í kjördæminu skipaði heiðurssæti á lista flokksins fyrir næstu þingkosningar. Þetta kemur fram á Vísi í dag. Þess í stað var ákveðið að Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra flokksins, skipaði heiðurssætið. Hann var áður þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Í frétt Vísis segir að 21 manns kjörnefnd sem raðaði upp þeim sætum sem ekki réðust í prófkjöri hafi gert tillögu um Björn í síðasta sæti listans, heiðurssætið. Á fundi kjördæmisráðsins kom fram tillaga um að setja Pál þar í staðinn en henni var hafnað. Þetta hefur blaðið eftir Jarli Sigurgeirssyni, formanni fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum.

Guðrún Hafsteinsdóttir markaðsstjóri leiðir listann og þingmennirnir Vilhjálmur Árnason og Ásmundur Friðriksson skipa næstu tvö sæti, samkvæmt niðurstöðu prófkjörs. Páll tilkynnti síðasta vetur að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Hann hafði leitt lista Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi í kosningum 2016 og 2017. 

Mikillar óánægju gætti með Pál meðal Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum eftir klofning flokksins fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar þar sem hann var sagður styðja klofningsframboðið. Páli var vikið úr fulltrúaráði Sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum og vantrausti lýst á hann.

Leiðrétt 10:41 Í upphaflegri gerð sagði að kjörnefnd hefði gert tillögu um Pál í heiðurssætið. Hið rétta er að kjörnefnd gerði tillögu um Björn, breytingartillaga kom fram um Pál en henni var hafnað.