Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óhjákvæmilegt að skera niður launakostnað

19.06.2021 - 20:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrettán var sagt upp störfum hjá Heilsuvernd hjúkrunarheimilum í gær. Fyrirtækið tók nýlega yfir rekstur hjúkrunarheimilisins Hlíðar eftir að Akureyrarbær sagði sig frá rekstrinum. Framkvæmdastjórinn segir að óhjákvæmilegt hafi verið að skera niður launakostnað.

Nauðsynlegt að ráðast í hagræðingu

Teitur Guðmundsson framkvæmdastjóri Heilsuverndar hjúkrunarheimila sagði í sjónvarpsfréttum í kvöld að nauðsynlegt hafi verið að ráðast í hagræðingaraðgerðir í rekstrinum. Uppsagnirnar hafi verið ein af þeim lausnum sem fyrirtækið sjái til að geta hagrætt. „Við þurfum að fara í uppsagnir til að ná utan um reksturinn,“ sagði Teitur.

Eitt best mannaða hjúkrunarheimili landsins

Aðspurður hvort uppsagnirnar bitnuðu ekki á þjónustunni á endanum sagði Teitur að það gæti gert það. Það væri samt þannig að öldrunarheimilið á Akureyri, núna Heilsuvernd hjúkrunarheimili, væri eitt best mannaða hjúkrunarheimili landsins og hefði gengið mjög vel í gegnum tíðina hvað varðaði mönnun og þjónustu. Það uppfyllti einna best skilyrði um mönnun og fagmönnun.

Lítið um færi til hagræðingar

„Við erum því ekki að fara niður fyrir meðaltal eða að breyta þessum hlutum, alls ekki. Við stöndum mjög vel að vígi og hyggjumst gera það áfram,“ sagði Teitur. Spurður að því hvort ekki hefði verið gerlegt að ná fram hagræðingu með öðrum leiðum en uppsögnum sagði Teitur að skoðun hafi leitt í ljós að rekstrarkostnaður og það hvernig rekstri hefur verið háttað gefi til kynna að reksturinn hafi verið mjög stöðugur síðustu ár.

Það hafði því verið lítið um færi til hagræðingar fyrir utan að taka til í starfsmannahaldi. Hann bendir á að 80% af kostnaði séu laun, en hjá Heilsuvernd hjúkrunarheimilum hafi hlutfall launakostnaðar verið 102% árið 2020. Þess vegna sé verið að hagræða.

Jón Agnar Ólason