Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Nær 1% þjóðarinnar brautskráð í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Háskólinn í Reykjavík
Á fjórða þúsund nemendur voru brautskráðir frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Bifröst í dag. Það er tæplega eitt prósent þjóðarinnar. Met var sett í fjölda brautskráðra í tveimur fyrstnefndu skólunum.

688 luku námi í Háskólanum í Reykjavík, og voru nemendur af verkfræðideild skólans þeirra fjölmennastir. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, sagði við útskriftina að menntun, þekking og nýsköpun væri lykillinn að sköpun sem mestra verðmæta án þess að ganga á sameiginlegar auðlindir. Hann sagði gríðarleg tækifæri á Íslandi til að skapa betra samfélag þar sem jafnrétti, sanngirni, vellíðan og heilbrigði væru í fyrirrúmi.

Rúmlega 2.500 brautskráðust frá Háskóla Íslands í dag. Jón Atli Benediktsson rektor lagði út af heimsfaraldrinum. Hann sagði að úthald og seiglu þyrfti til að ná settu marki þegar flestar forsendur brystu fyrirvaralaust. Nemendum hefði engu að síður tekist ætlunarverkið og í því væri fólgin mikil reynsla og lærdómur sem myndi nýtast - ekki síður en sjálf prófgráðan.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV