Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Málverk eftir Churchill úr eigu Onassis á uppboði

19.06.2021 - 02:28
Mynd með færslu
 Mynd: www.magnusthor.is
Uppboðshúsið Phillips í New York selur landslagsmálverk eftir Winston Churchill á uppboði 23. júní næstkomandi. Sérfræðingar telja að verkið sem málað er í imressjónískum stíl verði eftirsótt hjá áhugafólki um sögu og ekki síður hjá þeim sem hafa ástríðu fyrir frægu fólki.

Verkið ber heitið The Moat, Breccles, eða Díkið í Breccles en Churchill málaði það árið 1921. Breccles var heimili skyldfólks Clementine, eiginkonu Churchills en hann dundaði sér oft við að mála úti í skógi á landareigninni. 

Churchill, sem meðal annars var forsætisráðherra Bretlands á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar, minntist sérstaklega á málverkið í ritgerð sem hann skrifaði um málaralist sem tómstundagaman árið 1921. 

Sérfræðingar uppboðshússins telja að það komi til með að seljast fyrir eina og hálfa til tvær milljónir Bandaríkjadala eða sem nemur allt að 250 milljónum íslenskra króna.

Í mars seldist verk eftir Churchill úr eigu leikonunnar Angelinu Jolie á 11,6 milljónir dala. Churchill, sem lést 1965, varðveitti málverkið af díkinu sjálfur allt til ársins 1961 en þá færði hann það vini sínum, gríska skipakónginum Aristoteli Onassis að gjöf.

Verkið hékk á heiðursstað í snekkju skipakóngsins

Ari, eins og hann var kallaður, var svo ánægður með gjöfina að málverkið hékk á heiðursstað fyrir ofan bar um borð í lystisnekkju hans ásamt verkum Vermeers, Gauguin, Le Greco og Pissarro.

Snekkjan var nefnd eftir Christinu dóttur Onassis og var upphaflega byggð sem freigáta fyrir kanadíska sjóherinn. Hún var hluti þess skipaflota sem tók þátt í innrásinni í Normandi 6. júní 1944.

Engu var til sparað við að gera snekkjuna hina glæsilegustu og þangað sóttu helstu frægðarmenni þess tíma, á borð við Evu Peron, Richard Burton, Grace Kelly og John F. Kennedy og konu hans Jackie sem síðar varð eiginkona Onassis.

Við andlát hans árið 1975 var snekkjan seld en allir innanstokksmunir settir í geymslu. Nýverið ákváðu erfingjar skipakóngsins svo að selja málverkið eftir Winston Churchill. 

Uppboðshaldararnir ákváðu að endurskapa barinn úr Christinu, sem gekk undir heitinu Barinn hans Ara, í húsakynnum sínum. Það er gert til að auka enn áhugann á Díkinu í Breccles og þar verður boðið upp á Pol Roger eftirlætiskampavín Churchills.