Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Mál svikalæknis kveikir spurningar um öryggi skilríkja

Magnus Heunicke
 Mynd: regeringen.dk - Ljósmynd
Kirsten Normann Andersen, þingmaður danska Sósíalistaflokksins veltir fyrir sér hvort viðhlítandi öryggis sé gætt við útgáfu persónuskilríkja lækna í landinu.

Danska ríkisútvarpið greinir frá því að þingmaðurinn krefur bæði heilbrigðismálaráðherrann Magnus Heunicke og Nick Hækkerup dómsmálaráðherra svara.

Kveikja fyrirspurnarinnar er mál aðstoðarkonu hjúkrunarfræðinga við sjúkrahúsið í Viborg sem notað skilríki læknis til að villa á sér heimildir.

Sjá: Þóttist vera læknir og gaf læknisráð á Facebook

Konan komst yfir skilríki læknis með full réttindi og svaraði spurningum í Facebook-hópi um viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum. Andersen segir að grípa þurfi til aðgerða svo koma megi í veg fyrir að slíkt endurtaki sig enda sé það glæpsamlegt athæfi. Lausnin sé þó ekki augljós.

Þingmaðurinn segir skilríkin hafa tvennan tilgang, annars vegar að vernda læknana sjálfa og hins vegar skjólstæðinga þeirra.

Dönsku læknasamtökin og fleiri fagfélög leggja til að skilríki lækna verði ekki lengur sýnileg á netinu en Andersen fullyrðir að lausnin sé ekki fólgin í að fela þau fyrir almenningi sem eigi heimtingu á upplýsingum um alla þá lækna sem annast sjúklinga. Mál svikalæknisins er nú til rannsóknar hjá lögreglu. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV