Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Kuldi veldur því að makríll hefur ekki fundist

19.06.2021 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: svn.is
Kalt veður í vor og sumar veldur því að makríllinn finnst seinna á miðunum en undanfarin ár, segir framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Hann kveðst þó engar áhyggjur hafa af stöðunni. Frá sjómannadeginum í upphafi mánaðar hafa tveir leiðangrar haldið út á miðin í leit að makríl en árangur leitarinnar hefur látið á sér standa.

„Það hefur ekkert fundist af makríl suður af Eyjum ekki enn sem komið er en venjulega byrjar veiðin þar. Sjávarhitinn suður af Eyjum er mun kaldari en hefur verið undanfarin ár. Þessar tíu gráður, sem eru kjörhitastig fyrir makrílinn, eru þær lengra suður af landinu en verið hefur. Síðasta sumar voru komnar tíu gráðu hiti suður af Eyjum rétt um 10. júní en það eru 400 mílur í þessar tíu gráður núna,“ sagði Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, Binni í Vinnslustöðinni, í samtali við fréttastofu. Brynjar segist hvorki hafa áhyggjur af ástandinu né makrílstofninum.

Ekki ástæða til að hafa áhyggjur af stofninum

„Áhyggjur, nei í rauninni ekki. Auðvitað er þetta bara seinna á ferðinni og ég held það sé ekki ástæða til þess að hafa áhyggjur af makrílstofninum, hann er í þokkalegu standi. Við reiknum með því að makríllinn skili sér á ætistöðvarnar. Það er góð setning í biblíunni:„Leitið og þér munuð finna,“ sagði Sigurgeir.

Undanfarin ár hafa veiðar verið að hefjast á þessum tíma ársins og hefur einna helst verið veitt sunnan og austan við landið. Undirbúningsvinna fyrir næsta leitarleiðangur hefst á morgun að sögn Sigurgeirs og býst hann við því að Vinnslustöðin, Brim og Loðnuvinnslan ræði saman um framkvæmd leitarinnar. Fari svo að makríllinn finnist verður haldið beint til veiða.

Vantar grunnrannsóknir

„Já, ef við finnum makríl þá förum við í það að veiða. Það sem gerðist síðasta sumar er að makríllinn kom upp með suðurströndinni í byrjun júní og svo var veitt seinna um sumarið austur í Smugu. Menn þekkja ekki almennilega hvernig makríllinn gengur upp að landinu og hvernig hann gengur frá landinu og austur í Smuguna,“ sagði Sigurgeir Brynjar og bætti við að skortur sé á grunnrannsóknum til þess að átta sig betur á ferð makrílsins.

 

Andri Magnús Eysteinsson