Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hjartavöðvakvilli orsök skyndidauða fótboltamanna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ein skýring á skyndidauða knattspyrnumanna í miðjum leik er hjartavöðvakvilli sem er arfgengur sjúkdómur. Skyndileg andlát af þessu tagi virðast hafa færst í vöxt á undanförnum árum.

Um þetta er fjallað í Morgunblaðinu í dag og rætt við Tómas Guðbjartsson, yfirlækni og prófessor í hjartalækningum.

Meðal þeirra sem hafa látist af völdum sjúkdómsins er kamerúnski leikmaðurinn MarcVivien Foé en hann hné niður í fótboltaleik árið 2003 og lést á sjúkrahúsi skömmu síðar aðeins tuttugu og átta ára að aldri.

Haft er eftir Tómasi að einn af hverjum fimmhundruð beri sjúkdóminn en hann veldur því að hjartavöðvinn þykknar óeðlilega. Það eykur líkur á hjartsláttartruflunum og hjartastoppi við mikla áreynslu.

Læknirinn fagnar því að betur sé orðið fylgst með knattspyrnumönnum, þess sé bersýnilega þörf því skyndidauði hefur færst í vöxt á liðnum árum.