Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hefði kostað hundruð milljóna að verja Suðurstrandarveg

Mynd með færslu
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur. Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að ekki hafi verið talið ráðlegt að verja Suðurstrandarveg gegn framrennli hrauns, meðal annars vegna mikils kostnaðar og óvissu um að það myndi takast. Þess í stað verður áhersla lögð á að verja Svartsengi og Grindavíkurbæ þegar og ef þess gerist þörf.

„Það er búið  að funda mjög þétt og stíft síðustu daga og vikur og meta það hvort það sé gerlegt að verja Suðurstrandarvegi,“ sagði Fannar í viðtali við Kristínu Sigurðardóttur í hádegisfréttum. „Að vel athuguðu máli var ákveðið í gær að það myndi ekki ganga upp, bæði af tæknilegum ástæðum, tímans vegna og ekki síst vegna kostnaðarins. Þetta myndi hlaupa á mörg hundruð milljónum og alls ekki víst að þetta tækist.“

Nú er talið að hraun fari yfir veginn og renni út í sjó á næstu vikum. Fannar segi að því horfi menn nú til lengri tíma. „Ef hraunið heldur áfram að renna og tekur upp á því að renna til vesturs niður svokallaðan Nátthagakrika þá fer það að breiða úr sér á því svæði. Ef það heldur áfram í einhverja mánuði eða ár getur þurft að bregðast við svo það renni ekki vestur til Svartsengis og jafnvel til Grindavíkur. Við viljum hafa nægan tíma til þess að fyrirbyggja það og mynda öflugar varnir. Það er langur tími í að þetta myndi gerast en það er engu að síður verið að hanna mannvirki sem myndu koma til varnar í þessu sambandi.“