Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjölmargir verið án vinnu frá upphafi Covid

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfir sex þúsund manns hafa verið án vinnu í ár eða lengur en forseti Vinnumálastofnunar er bjartsýnn á að það fækki hratt í þeim hópi á næstu misserum. Forseti ASÍ segir að koma þurfi í veg fyrir að ungt fólk lendi í vanvirkni, líkt og gerðist eftir bankahrun.

Af þeim 17.600 sem voru án atvinnu í maí höfðu rúmlega sex þúsund manns verið án atvinnu í 12 mánuði eða lengur. Mjög hefur fjölgað í þessum hópi undanfarna mánuði. „Þetta er hópurinn sem kom inn í Covid. Þetta er fólk úr ferðaþjónustunni og tengdum greinum,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.

Til að vinna bug á miklu atvinnuleysi var átakinu Hefjum störf hleypt af stokkunum, en það felst í að fyrirtæki fá tímabundinn styrk til að ráða inn fólk af atvinnuleysisskrá. Unnur segir átakið hafa farið vel af stað og býst við að það dragi hratt úr langtímaatvinnuleysi á næstunni. „Það gengur alveg glimrandi vel og ég er mjög bjartsýn á að þetta fólk fái vinnu núna í sumar og alveg á næstu vikum. Það er nú líka þannig með reglurnar í Hefjum störf að þar eru stjórnvöld að ýta undir atvinnurekendur að ráða inn fólk sem er búið að vera 12 mánuði eða lengur því það er hærri ráðningarstyrkur með þeim.“

Náðu sér aldrei eftir bankakreppuna

Rannsóknir ASÍ og annarra sýna að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu hrakar þegar atvinnuleysi dregst á langinn. Forseti ASÍ segist binda miklar vonir við Hefjum störf átakið en að einn tiltekinn hópur eigi á hættu að verða útundan. „Það er ungt fólk sem dettur í vanvirkni og við sjáum það frá kreppunni fyrir 10 árum síðan í atvinnuleysinu þá að það var hópur ungs fólks sem jafnaði sig ekki eftir það og fór í vanvirkni, það er að segja var hvorki á vinnumarkaði né í skóla.“

Drífa segir aðstæður þessa fólks um margt frábrugðnar því sem var fyrir tíu árum. Halda þurfi sérstaklega utan um það og tryggja að fólkið fái annaðhvort vinnu eða geti hafið nám. „Þessi kreppa er náttúrlega öðruvísi en aðrar kreppur þar sem ekki hefur verið hægt að halda uppi einhvers konar félagslegri virkni fyrir atvinnuleitendur á þessum tímum samkomutakmarkana. Fólk af erlendum uppruna er fleiri í þessum hópi heldur en Íslendingar og það þarf meira átak til að hefja virkni en annars.“

Magnús Geir Eyjólfsson

Tengdar fréttir