Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fátíður viðsnúningur í Landsrétti

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Lögmaður manns sem sýknaður var af ákæru um manndráp í Landsrétti segir vel koma til greina að skjólstæðingur hans höfði skaðabótamál gegn ríkinu. Saksóknari segir niðurstöðuna koma á óvart en telur ólíklegt að sótt verði um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Arturas Leimontas í 16 ára fangelsi  hvenær en hann var ákærður fyrir að hafa kastað hinum 58 ára gamla Egidijus Buzelis fram af svölum á þriðju hæð fjölbýlishúss í Úlfarsárdal.

Landsréttur sýknaði hins vegar Leimontas í gær þar sem ekki þótti hafið yfir skynsamlegan vafa að  Leimontas hefði orðið Buzelis að bana. Í dómnum segir að engin vitni eða bein sönnunargögn hafi verið fyrir hendi sem sanni verknaðinn.

Það er afar fátítt að sakfellingu í manndrápsmáli sé snúið við á æðra dómstigi. Ef undan er skilið Guðmundar- og Geirfinnsmálið, sem var um margt einstakt mál, þarf líkast til að leita einhverja áratugi aftur í tímann til að finna sambærilegan dóm.

Undrast niðurstöðu Landsréttar

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari í málinu, segir niðurstöðu Landsréttar koma á óvart. Á líki hins látna hafi verið áverkar sem ekki hlutust af fallinu fram af svölunum. Það bendi sterklega til þess að átök hafi átt sér stað fyrir fallið. Þá hafi trúverðugt vitni lýst því að Leimontas og hinn látni hafi átt í útistöðum fyrir fallið og framburður Leimontas verið ótrúverðugur. Engu að síður býst Helgi Magnús ekki við því að sótt verði um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar þar sem dómurinn tekur sjaldnast við málum þar sem niðurstaðan ræðst af mati munnlegs framburðar.

Kemur vel til greina að krefja ríkið um bætur

Arnar Kormákur Friðriksson, verjandi Leimontas, segir niðurstöðu Landsréttar rétta. Ekki hafi verið hægt að upplýsa hvað átti sér stað umrætt kvöld. Hann segist ekki hafa rætt mögulega bótakröfu á hendur ríkinu við skjólstæðing sinni. Slíkt komi þó vel til greina.

Magnús Geir Eyjólfsson