Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Eldgosið þriggja mánaða: Svo margt hefur komið á óvart

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eldgosið í Geldingadölum fagnar þriggja mánaða afmæli í dag, 19. júní, en það hófst að kvöldi föstudagsins 19. mars og hefur ekki slegið af síðan. Eldsumbrotin hafa tekið á sig ýmsar myndir og ekki allar eftir bókinni. Reyndar er það aðeins eitt sem jarðvísindamenn treysta sér til að segja um með nokkurri vissu - að gosinu er hvergi nærri að ljúka.

Að líkindum dyngjugos

Það er alltént mat Kristínar Jónsdóttur, hópstjóra náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands. Nú þegar eru þrír mánuðir liðnir af sleitulausu gosi og aðspurð um hvort hægt sé að tala um dyngjugos segir hún að það hljóti að vera óhætt. „Ef þetta heldur áfram svona þá erum við að horfa á einhvern slíkan atburð,“ en þegar um dyngjugos er að ræða kemur kvika upp á yfirborðið af miklu dýpi. Rennsli í slíku gosi er jafnan hægt en aftur á móti getur það varað í langan tíma, jafnvel í einhver ár. Slík gos hafa varla sést frá lokum ísaldar.

Í fyrsta sinn í 6000 ár

Óhætt er að segja að ýmislegt hafi komið jarðvísindamönnum á óvart hvað eldgosið í Geldingadölum varðar, ekki síst kaflaskipt hegðun þess og samsetning kvikunnar sem senn mun fylla Nátthaga og flæða í kjölfarið yfir Suðurstrandarveg, ef að líkum lætur. En hvað er það sem helst hefur komið Kristínu í opna skjöldu? „Það er svo margt. Í fyrsta lagi að það skuli yfirleitt vera eldgos á Reykjanesskaganum er stórmerkilegt. Það eru komin 800 ár síðan þarna var síðast eldgos. Svona eldgos, þar sem kvikan kemur svona djúpt að, og ekki úr einhverju kvikuhólfi sem er á grynnra dýpi, hefur svo aftur á móti ekki átt sér stað í 6000 ár á þessum stað.“

Óvenjulegur aðdragandi

Það sem kom Kristínu og kollegum hennar ennfremur mjög á óvart var aðdragandinn að gosinu sem hún segir hafa verið ákaflega merkilegt að fylgjast með. „Það var ótrúlega mikil skjálftavirkni sem fylgdi þessu, en ekki síður hvernig dró svo úr henni og dró um leið úr öllum þessum merkjum sem við erum vön að fylgjast með og það rétt áður en gosið hófst.“

Þykkt og þunnt hraun í bland

Síðan gosið hófst hefur verið nokkuð stöðug framleiðsla af hrauni, sem aftur jókst aðeins í byrjun maí. Síðan þá hefur framleiðslan haldist heldur jöfn. Engu að síður segir Kristín ýmislegt forvitnilegt við hraunið sem eldgosið framleiðir. „Við erum að sjá bæði apalhraun og helluhraun skiptast á í einu og sama gosinu. Það skiptir máli varðandi hve hratt hraunið æðir fram og nærliggjandi dalir fyllast, hvernig hraunflæði er í gangi.“

Veisla fyrir jarðvísindamenn

Það má því með sanni segja að þegar allt er talið til þá er eldgosið í Geldingadölum hálfgerð veisla fyrir jarðvísindamenn, þar sem nánast hver dagur felur í sér forvitnilega kafla í jarðvísindasögu Íslands. Kristín tekur undir þetta og bætir því við að ekki spilli gott aðgengi fyrir hana og aðra vísindamenn þegar kemur að því að kynna sér eldsumbrotin frá eigin hendi. „Ef við berum þetta saman við síðasta eldgos sem varð í Holuhrauni fyrir norðan Vatnajökul þar sem mjög erfitt var að komast að gosstöðvunum, þá er auðvitað mjög þægilegt að hafa þetta gos í hæfilegri akstursfjarlægð.

Spáð fyrir um framhaldið

Það hefur ítrekað sýnt sig að gosið í Geldingadölum er ólíkindatól og einkar mikill vandi að spá fyrir um eitt eða neitt sem því viðvíkur. Það er samt engin leið að sleppa Kristínu án þess að spyrja hana út í hver hennar tilfinning sé hvað framhaldið áhrærir. „Þetta er auðvitað erfiðasta spurningin sem við stöndum frammi fyrir,“ segir hún og kímir við. „Lengd gossins og í framhaldinu heildarrúmmálið af hrauni sem kemur upp á yfirborðið úr þessum eldstöðvum. En ég ætla að leyfa mér að giska á að þetta muni halda áfram í einhverja mánuði. Við erum allavega ekki að sjá að neitt dragi úr því. Við getum heldur ekki ímyndað okkur hvað það verður sem [á endanum] kemur til með að loka fyrir þessa rás, sem virðist vera svona kröftug.“

 „Við erum þá kannski að fara að taka viðlíka spjall 19. mars 2022?“
„Það gæti jafnvel verið,“ segir Kristín og hlær við.