
Belgar bregðast við Delta-afbrigðinu með komubanni
Georgía er eina Evrópulandið fyrir utan Bretland á lista Belganna. Tilgangurinn er að stemma stigu við útbreiðslu Delta-afbrigðis kórónuveirunnar, sem meðal annars hefur orðið til þess að bresk stjórnvöld fundu sig knúin til að fresta tilslökunum á samkomubanni í landinu.
Ferðafólk sem kemur til Belgíu þarf að uppfylla ströng sóttvarnarskilyrði og fara í skimun. Samkvæmt upplýsingu belgískra stjórnvalda eru aðeins stjórnarerindrekar í brýnum erindagjörðum undanþegnir banninu auk þeirra sem stunda vöruflutninga til og frá landinu.
Opinberar tölur sýna að um 6,1% smita í Belgíu séu af Delta-afbrigðinu en rannsóknir benda til að hlutfallið sé hærra.
AFP fréttaveitan hefur eftir Jan Eyckmans talsmanni Franks Vandenbroucke heilbrigðisráðherra Belgíu að stjórnvöld hafi ekki vilja tefla góðum árangri í tvísýnu en bólusetningar hafa gengið vel þar í landi.
„Bretar eru fimm vikum á undan okkur í bólusetningarátaki sínu, og þeir þurftu að fresta sínum afléttingum," segir talsmaður heilbrigðisráðherrans en áréttar að tilskipunin sé tímabundin og verði endurskoðuð reglulega.