Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Belgar bregðast við Delta-afbrigðinu með komubanni

epa09283582 Vice-prime minister and Public Health and Social Affairs minister Frank Vandenbroucke during a press conference after a meeting of the consultative committee with ministers of the Federal government, the regional governments and the community governments concerning the evolution of the Covid-19 epidemic Brussels, Belgium, 18 June 2021.  EPA-EFE/BERT VAN DEN BROUCKE / POOL
 Mynd: EPA-EFE - PHOTONEWS POOL
Belgísk yfirvöld hafa ákveðið að banna tímabundið heimsóknir ferðafólks frá ríkjum utan Evrópusambandsins eigi síðar en frá og með 27. júní næstkomandi. Bretland er eitt þeirra 27 ríkja sem bannið tekur til, auk Indlands, Brasilíu og Suður-Afríku svo dæmi séu nefnd.

Georgía er eina Evrópulandið fyrir utan Bretland á lista Belganna. Tilgangurinn er að stemma stigu við útbreiðslu Delta-afbrigðis kórónuveirunnar, sem meðal annars hefur orðið til þess að bresk stjórnvöld fundu sig knúin til að fresta tilslökunum á samkomubanni í landinu.

Ferðafólk sem kemur til Belgíu þarf að uppfylla ströng sóttvarnarskilyrði og fara í skimun. Samkvæmt upplýsingu belgískra stjórnvalda eru aðeins stjórnarerindrekar í brýnum erindagjörðum undanþegnir banninu auk þeirra sem stunda vöruflutninga til og frá landinu.

Opinberar tölur sýna að um 6,1% smita í Belgíu séu af Delta-afbrigðinu en rannsóknir benda til að hlutfallið sé hærra.

AFP fréttaveitan hefur eftir Jan Eyckmans talsmanni Franks Vandenbroucke heilbrigðisráðherra Belgíu að stjórnvöld hafi ekki vilja tefla góðum árangri í tvísýnu en bólusetningar hafa gengið vel þar í landi.

„Bretar eru fimm vikum á undan okkur í bólusetningarátaki sínu, og þeir þurftu að fresta sínum afléttingum," segir talsmaður heilbrigðisráðherrans en áréttar að tilskipunin sé tímabundin og verði endurskoðuð reglulega.