Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill fara varlega í afléttingar á landamærum

Svandís Svavarsdóttir
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Ráðherranefnd fundar um tilhögun Covid-varna á landamærunum á næstu dögum. Ferðaþjónustan kallar eftir frekari tilslökunum en heilbrigðisráðherra vill fara varlega og segir að verja þurfi góða stöðu innanlands.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, sagðist í viðtali við Morgunblaðið í dag vonast til þess að sóttkví við komuna til landsins yrði afnumin fljótlega. Bólusettir ferðamenn þurfa einungis að fara í eina sýnatöku við komu en óbólusettum er gert að fara tvisvar í sýnatöku með fimm daga sóttkví á milli. Það fyrirkomulag stendur að minnsta kosti til 15. júlí en Bjarnheiður segir að með afléttingu allra takmarkana geti ferðaþjónustan farið í fullan gang.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir að ráðherranefnd muni funda um fyrirkomulagið á landamærunum á næstu dögum og verður sóttvarnalæknir hafður með í ráðum. „Við náttúrlega tökum mið af áhættunni eins og við höfum gert hingað til og ég held að  landamærin séu eitt af því almikilvægasta sem að við erum að passa upp á akkúrat núna.“

Verðmæti fólgin í góðri stöðu innanlands

Þótt smittölur víða um heim hafi verið á niðurleið samhliða bólusetningum hafa heilbrigðisyfirvöld áhyggjur af hinu svokallaða delta-afbrigði sem upprunnið er í Indlandi. Bresk yfirvöld hafa frestað afléttingum vegna þess og í Rússlandi er veiran aftur farin á flug. Svandís segir að í ljósi þess þurfi að fara mjög varlega. „Við erum að fá mikið af ferðamönnum núna sem eru bólusettir og það hefur breytt mjög miklu fyrir ferðaþjónustuna hér og það eru mestu sóknarfærin í þeim hópi. Þessi verðmæti sem eru fólgin í þessari sterku stöðu hér innanlands eru kannski það mikilvægasta af öllu þannig að við förum varlega.“