Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Við eigum mikið af efnilegum lögreglukonum“

Mynd: RÚV / RÚV
„Við eigum mikið af efnilegum lögreglukonum á Íslandi sem myndu sóma sér vel í sérsveitinni,“ segir Jón Már Jónsson, yfirmaður sérsveitar ríkislögreglustjóra. Inntökuskilyrði verði endurmetin á næstunni án þess að afsláttur verði gefinn á gæðum eða öryggi. 39 lögreglumenn eru í sérsveitinni í dag, enginn þeirra er kona. „Þetta er eitthvað sem verður skoðað og farið vel yfir,“ segir Jón Már.

Sérstök úttekt var gerð hjá embætti Ríkislögreglustjóra. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði í fréttum Stöðvar 2 í vikunni að gera þurfi ýmsar úrbætur. Eins og til dæmis að engar konur hafi komist í sérsveitina, einu vopnuðu lögreglusveit landsins. Inntökuskilyrði þurfi að endurskoða.

„Það er nauðsynlegt að þau sem eru í sérsveitinni séu vel á sig komin líkamlega, eru með þungan búnað; varnarbúnað, vesti, skothelda hjálma og vopn sem eru yfir 20 kíló og þurfa fara langa leið og upp og niður stiga og það er líkamlega erfitt. Hvernig þrekprófið er útfært er mjög gott að fara yfir.“ 

Jón Már segir að breytingar hafi verið gerðar á sérsveitum víða, þar á meðal í Noregi nýlega og æfingar teknar úr crossfit íþróttinni. „Mikið af æfingum eru teknar í vesti sem er 15 kíló. Ég held að það geti verið mjög áhugavert að skoða hvað þeir eru að gera í þessum efnum.“

Rætt var við Jón Má í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV