Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Shoplifter opnar listrými og kaffihús í Elliðaárdal

Mynd: Menningin / RÚV

Shoplifter opnar listrými og kaffihús í Elliðaárdal

18.06.2021 - 14:46

Höfundar

Hrafnhildur Arnardóttir – Shoplifter – opnar Höfuðstöðina í gömlu kartöflugeymslunum í Ártúnsbrekku í sumar. Stöðin hýsir verk hennar Chromo Sapiens til frambúðar.

Hrafnhildur var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2019 og sýndi þar verkið Chromo Sapiens, eins konar dropasteinshelli úr litríkum gervihárum með hljóðmynd eftir HAM.

Verkið var sett upp í Listasafni Reykjavíkur í fyrra við miklar vinsældir en hefur nú fundið sér varanlegt heimili í Ártúnsbrekkunni, nánar tiltekið í gömlu kartöflugeymslunum við Rafstöðvarveg. Höfuðstöðin skiptist í tvo bragga. Annar hýsir sjálft listaverkið en í hinum verður safnbúð og kaffihús. 

„Það eru ekki bara kartöflur sem fá að spíra hérna, líka listaspírur eins og ég,“ segir Hrafnhildur, sem ætlar að opna listrýmið Höfuðstöðina í bröggunum í sumar, ásamt Lilju Baldursdóttur samstarfskonu sinni. 

„Hér mun Chromo Sapiens fá að standa til frambúðar og bjóða gesti velkomna. Mér finnst Ísland vera heimastaður þessa verks. Hér ertu með Ellliðaárdalinn, náttúruperlu í miðri Reykjavík. Verkið er hins vegar eins konar ofurnáttúra, sem það er þá hægt að upplifa á sama tíma. Ég held að þetta verði yndislegur áningarstaður.“

Kaupin á húsinu eru frágengin en Hrafnhildi og Lilju vantar herslumuninn til að ljúka við framkvæmdir og hafa því hafið hópfjármögnun á Kickstarter. 

„Við erum bara á fullu og ætlum að opna eins fljótt og hægt er í sumar. Við getum ekki gefið nákvæma dagsetningu en þetta er að bresta á.“

Nánar var fjallað um Höfuðstöðina í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Hinn litrófsborni hamur Shoplifter í Feneyjum