Rúmlega 60 ára sögu lýkur í lok júlí

Mynd: RÚV / Skjáskot

Rúmlega 60 ára sögu lýkur í lok júlí

18.06.2021 - 19:25

Höfundar

Þetta er partur af lífinu við þjóðveginn, segir einn fastagesta Litlu kaffistofunnar. Viðskiptin hafa minnkað mikið í faraldrinum og kaffistofunni verður að óbreyttu lokað í lok júlí. Þar með lýkur rúmlega 60 ára sögu veitingasölu á staðnum.

Litla kaffistofan er við Suðurlandsveg í Svínahrauni, við þjóðveg eitt. Hún var opnuð 4. júní 1960 og þar hefur verið rekstur óslitið síðan þá. Litla kaffistofan er í eigu Olís sem hefur leigt reksturinn út og síðustu fimm ár hafa hjónin Svanur Fannberg Gunnarsson og Katrín Hjálmarsdóttir rekið hana.

Þau segja að ekki sé grundvöllur fyrir starfseminni áfram, ætla að loka 31. júlí og samkvæmt upplýsingum frá Olís er óvíst hvort auglýst verður eftir nýjum rekstraraðilum.  „Þetta er orðinn ágætis tími hjá okkur í þessu og reksturinn er orðinn erfiður,“ segir Svanur.

Hann segir að margt hafi breyst í kórónuveirufaraldrinum, til dæmis hafi öll viðskipti yfir daginn minnkað mikið. En eitt hafi þó haldið sér og það sé hádegisösin. 

Og sú var raunin í hádeginu í dag því að bekkurinn var þéttsetinn í Litlu kaffistofunni. Svanur segir að stór hluti þeirra sem sæki staðinn séu fastagestir og að góð kynni takist gjarnan á meðal þeirra. 

Einn þeirra er Sigurjón Guðmundsson verkstjóri hjá Loftorku.  „Þetta er mjög vinalegur staður og gott að vera hérna. Og hér er gott að borða,“ segir Sigurjón. Hvað er best? „Hér er til dæmis mjög góður heimilismatur.“ 

Áttu eftir að sakna Litlu kaffistofunnar?  „Það á ég eftir að gera. Það er ekki spurning. “

Árni Jóhannsson er annar fastagestur. „Við komum hingað á hverjum degi í hádeginu af því að við erum að vinna hérna á heiðinni,“ segir Árni sem var í hópi vinnufélaga sinna hjá Loftorku.

Hann segir ýsu í raspi vera í uppáhaldi af þeim réttum sem boðið er upp á á Litlu kaffistofunni. Ef svo fer fram sem horfir þá verður staðnum lokað í lok júlí - hvar ætlið þið þá að borða? „Við verðum einhvernveginn að leysa það. En það er langt þangað til, kannski breytist eitthvað í millitíðinni. Hver veit.“

Áttu eftir að sakna Litlu kaffistofunnar? „Já hver á ekki eftir að gera það? Þetta er svona partur af lífinu hérna við þjóðveginn,“ segir Árni.

 

Tengdar fréttir

Innlent

Kveður Litlu kaffistofuna eftir 25 ára starf