Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Reykjavíkurflugvöllur á skipulagi til 2032

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Íbúðamagn er aukið á ýmsum reitum í borginni og nýr stokkur fyrir bílaumferð um Sæbraut er settur inn í skipulag. Þá er landnotkun vegna flugvallar framlengd til ársins 2032.

Þetta er meðal breytinga á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem samþykktar voru í borgarstjórn á þriðjudag.

Um er að ræða uppfærða útgáfu af aðalskipulaginu, AR2030, sem samþykkt var árið 2014 en þar er lögð áhersla á þéttingu byggðar og breyttar ferðavenjur. Nýja aðalskipulagið gildir til ársins 2040.

Nýjum íbúðarreitum er komið fyrir á ýmsum svæðum. Má þar nefna KR-svæðið og Ægisíðu í Vesturbænum, Gufunes í Grafarvogi og Skeifuna.

Borgarlína er fest í aðalskipulaginu í samræmi við breytingar á svæðisskipulagi og ákveðnari viðmið sett um að þéttleiki byggðar ráðist af nálægð við almenningssamgöngur og fjölbreytta atvinnukjarna.

Gert er ráð fyrir tveimur stokkum fyrir bílaumferð í skipulaginu, í samræmi við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem undirritaður var árið 2019. Annar er um Miklubraut, en sá var þegar á skipulagi. Hinn er Sæbrautarstokkurinn, en hefjast á handa við byggingu hans síðar í ár og á henni að ljúka á næsta ári.