Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ræður fólki frá að fara með ung börn að gosstöðvum

Mynd: Emilía Guðgeirs / RÚV
Enn streymir hraun niður í Nátthaga á Reykjanesskaga. Dalbotninn í Nátthaga er nú þakinn hrauni og styttist í að dalurinn fyllist. Þaðan er stysta leið hraunsins að Suðurstrandarvegi.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvár hjá Veðurstofunni, segir að unnið sé að því að leita leiða til að beina hrauninu til sjávar. Almannavarnir í samvinnu við verkfræðistofuna Eflu eru með frekari varnargarða til skoðunar.

Kristín ræður fólki frá því að fara að gosstöðvunum með ung börn. „Það er ekki mjög skynsamlegt. Það er að safnast mikið gas fyrir í Nátthaga og þessa daga eru norðlægar áttir og þar er gas að safnast fyrir. Þá er ekki mjög skynsamlegt að koma með lítil börn sem eru með viðkvæm lungu,“ segir Kristín.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV