Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Osaka mætir ekki til leiks á Wimbledon mótið

Mynd með færslu
 Mynd: Wiki Commons

Osaka mætir ekki til leiks á Wimbledon mótið

18.06.2021 - 19:05
Naomi Osaka, ein besta tenniskona heims, hefur tilkynnt það að hún kemur ekki til með að keppa á hinu sögufræga Wimbledon móti í tennis. Hún stefnir þó á þátttöku á Ólympíuleikunum á heimavelli í Tókýó.

 

Osaka, sem kemur frá Japan, hætti keppni á Opna franska meistaramótinu í síðasta mánuði eftir að hún mætti ekki á blaðamannafund eftir sigur í fyrstu umferð. Hún gaf það út fyrir mót að hún kæmi ekki til með að mæta á slíka fundi né tala við fjölmiðla þar sem hún væri að vernda andlega heilsu sína.

Osaka, sem er næst efst á heimslistanum um þessar mundir, var sektuð fyrir athæfið og dró sig þar af leiðandi úr keppni. Wimbledon hefst 28. júní og þurfa tenniskonur heimsins því ekki að hafa áhyggjur af því að mæta Osaka þar því hún hefur gefið það út að þangað mæti hún ekki.

Hún kveðst þó spennt að halda til heimalandsins og taka þátt á Ólympíuleikum enda ekki á hverjum degi sem tækifærið gefst að spila fyrir framan samlanda sína á heimavelli. 

Ólympíuleikarnir hefjast 23. júlí og verða í beinni útsendingu hér á RÚV.