Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Héldum að einn einstaklingur væri kominn í vatnið“

18.06.2021 - 13:07
Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Viðar Arason, sem er í aðgerðastjórn björgunarsveitaraðgerða á Suðurlandi, minnir á mikilvægi öryggisbúnaðar og segir að óvanir eigi ekki erindi á vatnið. Alvarleg slys hafi orðið á Þingvöllum og vatnið sé mjög kalt, allan ársins hring. En mikill viðbúnaður var við Þingvallavatn í morgun þegar neyðarlínu barst tilkynning um þrjár ungar stúlkur sem lent höfðu í vandræðum á uppblásnum bát á vatninu. Báturinn var þá farinn að fyllast af vatni og þær gátu ekki siglt honum að landi.

Viðar segir að stúlkurnar hafi verið kaldar og blautar þegar komið var í land en þær voru fluttar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. 

Allar björgunarsveitir Árnessýslu, sjúkraflutningamenn og hluti af björgunarsveitum höfuðborgarsvæðisins voru kallaðar út um sjöleytið í morgun ásamt lögreglu og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Einnig voru kafarateymi slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu og sérsveitar ríkislögreglustjóra kallaðar á vettvang. Nokkur öldugangur hafi valdið því að báturinn tók að fyllast. 

Fengu tilkynningu um að einn einstaklingur væri kominn í vatnið

„Við fengum upplýsingar í blábyrjun að einn einstaklingur væri kominn í vatnið og væri að halda í bátinn. En þegar á vettvang var komið, voru allir einstaklingarnir um borð og þá náðust samskipti á milli stúlknanna og björgunarsveitar sem verður til þess að þær synda í land. Það er auðvitað mjög krefjandi verkefni þar sem Þingvallavatn þar sem vatnið er gríðarlega kalt, “ segir Viðar. 
 

Katrín María Timonen
Fréttastofa RÚV