Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Grunuð um fíkniefnasölu og peningaþvætti á Akureyri

18.06.2021 - 14:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Lögreglan á Norðurlandi eystra handtók á miðvikudag karl og konu vegna gruns um sölu fíkniefna. Rannsókn málsins er á frumstigi en þau eru einnig grunuð um peningaþvætti og brot á barnaverndarlögum. Ekki var farið fram á gæsluvarðhald vegna málsins.

Fundu fíkniefni og tól til ræktunar

Maðurinn sem var handtekinn var upphaflega stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var þá að koma frá konunni sem einnig var handtekin en við húsleit þar fundust fíkniefni. Þá var einnig gerð húsleit í fyrirtæki í eigu mannsins á Akureyri þar sem fundust fíkniefni og tól til ræktunar. 

Rannsaka peningaþvætti og brot á barnaverndarlögum

Bergur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, segir rannsókn málsins á frunmstigi. Hann segir fólkið hafa verið yfirheyrt en ekki hafi verið farið fram á gæsluvarðhald. „Grunur leikur á að kannabisefnin hafi verið ætluð til sölu. Samhliða því fer því fram rannsókn á meintu peningaþvætti vegna brotastarfsemi, sem og broti gegn barnaverndarlögum,“ segir Bergur.