Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fyrrverandi forseti Fílabeinsstrandarinnar snýr heim

epa09281392 Former Ivorian president Laurent Gbagbo gestures as he speaks to supporters at the Ivorian Popular Front (FPI) offices in Abidjan, Ivory Coast, 17 June 2021. Former president Gbagbo returns from his exile in Brussels after ICC appeals judges on 31 March 2021 upheld the acquittals of Gbagbo and Goude who were both in 2019 acquitted from the charges of war crimes allegedly committed during post-electoral violence in Ivory Coast between December 2010 and April 2011.  EPA-EFE/LEGNAN KOULA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Laurent Gbagbo, fyrrverandi forseti Fílabeinsstrandarinnar, sneri aftur heim í gær eftir nærri áratugslanga fjarveru. Honum var ákaft fagnað en segist ætla að bíða með að gefa út pólítískar yfirlýsingar.

Forsetinn fyrrverandi var ákærður fyrir glæpi gegn mannkyni en var nýlega sýknaður af þeim ásökunum.

Þúsundir stuðningsmanna Gbagbos söfnuðust saman og fögnuðu heimkomu hans við flugvöllinn og á götum höfuðborgarinnar Abidjan. Lögregla tók til þess ráðs á nokkrum stöðum í borginni að dreifa mannfjölda með táragasi.

Gbagbo var handtekinn í apríl fyrir tíu árum eftir að hann neitaði að sætta sig við niðurstöðu forsetakosninga í nóvember 2010. Átök stóðu yfir í landinu um nokkurra mánaða skeið í kjölfarið, sem kostuðu um þrjú þúsund manns lífið.

Gbagbo neitaði alfarið að hafa hvatt til ófriðarins en réttarhöld yfir honum fyrir Alþjóða glæpadómstólnum í Haag hófust í desember 2011. Hann var endanlega sýknaður af öllum ákæruliðum í mars síðastliðnum.

Alassane Ouattara forseti landsins og fyrrum andstæðingur Gbagbos kveðst fagna heimkomu hans í nafni sátta og samlyndis.