Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fimm frískandi og fjörug á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Pa Salieu ft Slowthai - Glidin

Fimm frískandi og fjörug á föstudegi

18.06.2021 - 14:10

Höfundar

Þrátt fyrir að veðrið sé með tóm leiðindi þá er augljóslega sumar í siðuðum löndum eins og tónar Fimmunnar endurspegla. Tónlistarfólkið sem kemur með sumarið til okkar eru ljóðskáldið Mustafa, rappararnir Pa Salieu og Slowthai, dansdívan Peggy Gou, ólíku dúettarnir Sofi Tucker og Amadou og Mariam auk tónlistarkonunnar H.E.R.

Mustafa - The Hearse

Ljóðskáldið og tónlistarmaðurinn Mustafa kemur frá Toronto og hefur sent frá sér lagið The Hearse. Lagið er tekið af fyrstu plötu kappans When Smoke Rises, sem er pródúseruð af Frank Dukes og Jamie xx, og inniheldur lög þar sem Sampha, James Blake og fleiri koma við sögu.


Pa Salieu með Slowthai - Glidin'

Coventry grime-rapparinn Pa Salieu er búinn að vera sjóðandi heitur í heimalandinu undanfarið ár og vann á dögunum Sounds of 2021-verðlaunin sem BBC veitir hæfileikaríkustu nýliðum ársins. Í partíbombunni Glidin' hefur hann fengið með sér annan ekki síður sjóaðan og sjóðheitan: rapparann Slowthai og þeir bera saman bækur sínar um humar og frægð.


Peggy Gou með Oh Hyuk - Nabi

Það hefur ekki mikið komið frá Peggy Gou síðan að hún sendi frá sér smellinn Starry Night sem sló í gegn á dansgólfum árins 2019. Nýja lagið hennar er aðeins rólegra en maður á að venjast frá Peggy Gou en er engu að síður verulega skemmtilegt og sérstakt rafpopp með fönkí næntís blæ.


Sofi Tucker, Amadou og Mariam - Mon Cheri

Dúettarnir Sofi Tucker og Amadou og Mariam eru kannski ekki samstarf sem maður sá fyrir sér þar sem tónlist þeirra er frekar ólík og í fljótu bragði það eina sem er sameiginlegt er að hafa hlotið Grammy-verðlaun. Einhvern veginn ná þau samt sem áður að koma með það besta úr báðum áttum í laginu Mon Cheri sem er sungið á frönsku, bambara og portúgölsku.


H.E.R. með Keytranada og Thundercat - Bloody Waters

Fyrsta breiðskífa H.E.R. kemur út í dag en hennar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu þar sem Gabriella Sarmiento Wilson hefur raðað inn verðlaunum og vinsælum lögum allt frá árinu 2017. Í Bloody Waters, sem er svívirðilega fönkí lag að hætti tónlistarkonunnar sem minnir á Marvin og Massive Attack, er hún með þá Keytranada og Thundercat með sér.


Fimman á Spotify