Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Dýrara eldsneyti étur upp flugstyrk til Egilsstaða

18.06.2021 - 09:37
Flugfélög geta fengið styrki til að hefja áætlunarflug til Akureyrar eða Egilsstaða en nær allur styrkurinn færi í að greiða hærra verð fyrir eldsneyti þar en í Keflavík. Þeir sem markaðssetja Egilsstaðaflugvöll gagnrýna að í hvítbók um byggðamál sé ekkert að finna um flutningsjöfnun á flugolíu.

Það kostar að flytja eldsneyti út á land. Kostnaður við að flytja eldsneyti á bíla og báta er jafnaður með sérstöku kerfi en ekki flugvélaeldsneyti. Í byggðastefnu hefur jöfnun verið á dagskrá en í hvítbók um byggðamál kveður við nýjan tón. „Við erum fyrst og fremst ósátt við að í þessari útfærslu er búið að taka út að gera ráð fyrir flutningsjöfnun á flugvélaeldsneyti. Annað eldsneyti er flutningsjafnað eins og bifreiðaeldsneyti og bátaeldsneyti. En við erum að fá markaðsstyrki í dag til þess að markaðssetja Egilsstaðaflugvöll og Akureyrarflugvöll og hækkun á eldsneytisverðinu miðað við það sem er í Keflavík gerir það að verkum þessi styrkur nánast ést upp“ segir Björn Ingi Knútsson, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú.

Hver lítri af flugsteinolíu kostar næstum 37 krónum meira á Egilsstöðum en í Keflavík. Munurinn er minni á Akureyri. Erlend flugfélög kaupa aðeins hluta eldsneytis hér á landi en í útreikningum Austurbrúar er gert ráð fyrir að þriðjungur yrði keyptur hér. Olíukostnaður á hvert flug yrði miðað við þá forsendu hátt í 200 þúsund krónum meiri til Egilsstaða en til Keflavíkur. Aðeins 12% af flugstyrknum yrðu þá eftir en þar að auki er hann aðeins tímabundinn og með hámarki. „Þar sem þetta er tímabundinn styrkur sem veittur er til þess að laða að flugfélög hingað þá hefur þetta mikið að segja að vegna þess að eftir ákveðinn tíma, ef þau hefja áætlunarflug hingað inn, þá er orðið mikið dýrara að fljúga á Egilsstaðaflugvöll og Akureyrarflugvöll heldur en á Keflavíkurvöll. Við erum að vinna í því að reyna að jafna dreifingu ferðamanna um landið og það segir sig sjálft að ef það er óhagstæðara að fljúga á Egilsstaðaflugvöll og Akureyrarflugvöll þá verður Keflavíkurflugvöllur frekar fyrir valinu,“ segir Björn Ingi Knútsson.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV