Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Úthlutun fjársterkra í útboðinu skert niður í milljón

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Öll eignarhaldsfélög og fjársterkir einstaklingar, sem skráðu sig fyrir meira en 75 milljónum króna í hlutafjárútboði Íslandsbanka, fengu einungis úthlutun upp á eina milljón króna.

Það hafi verið gert óháð upphæð tilboðsins. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag og kveðst hafa staðfestar upplýsingar um að svona hafi verið staðið að málum. Tilboð undir einni milljón eru sögð ekki hafa verið skert.

Lífeyrissjóðir, verðbréfasjóðir og tryggingafélög fá hærri skerf samkvæmt því sem greint er frá í blaðinu en þurfa þó að sæta einhverjum skerðingum. Níföld umframeftirspurn var eftir bréfum Íslandsbanka í nýafstöðnu útboði.

Markaður Fréttablaðsins fullyrðir jafnframt að svokölluð utanþingsviðskipti sem námu hundruðum milljóna króna hafi verið gerð eftir að útboðinu lauk í fyrradag þar sem fjárfestar afsöluðu sér úthlutuðum hlutabréfum fyrir yfir 90 krónur á hlut sem er 15% hærra en útboðsgengið var.