Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tveir liggja nú á sjúkrahúsi í Nuuk með COVID-19

17.06.2021 - 06:30
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock - RÚV
Nú liggja tveir á sjúkrahúsinu í Nuuk á Grænlandi smitaðir af COVID-19. Einn var lagður inn í gær sem hafði verið veikur í nokkra daga en svo kom að hann þurfti á sjúkrahúsvist að halda.

Að sögn landlæknis Grænlands er ástand hvorugs mjög alvarlegt. Báðir starfa við byggingu flugstöðvarinnar í Nuuk en þangað má rekja þau smit sem komið hafa upp undanfarna daga.

Sem stendur eru níu staðfest kórónuveirusmit á Grænlandi. Fimm þeirra eru í Nuuk og er talið að uppruna hluta þeirra megi rekja til fermingarveislu í bænum á laugardag. Allir veislugestir, tvö hundruð talsins, voru boðaðir í skimun í gær.

Smitrakning hefur gengið vel og ekki hafa komið upp ný tilfelli undanfarna tvo daga. Allar ferðir frá Nuuk, höfuðstað Grænlands, til annarra byggða í landinu, eru bannaðar til 22. júní með þeirri undantekningu að fljúga má til Kaupmannahafnar.