Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telur að afbrigðið á Grænlandi geti verið mjög smitandi

17.06.2021 - 22:47
Mynd með færslu
Höfuðstöðvar grænlensku heimatjórnarinnar í Nuuk Mynd: KNR
Ekki er enn vitað hvaða afbrigði kórónuveirunnar herjar á Grænland en margt bendir til að það sé mjög smitandi, þrátt fyrir að harla fáir hafi smitast. Smitrakning heldur áfram af miklu kappi.

Grænlenska útvarpið hefur þetta eftir Henrik L. Hansen landlækni sem segir niðurstöður greininga ekki enn liggja fyrir. Hann kveðst þó óhikað geta fullyrt að afbrigðið sé mjög smitandi, aðeins hafi þrír verið í samneyti við þá smituðu og þeir smituðust allir af COVID-19.

Hansen segir það koma á óvart, segir að hrein tilviljun geti ráðið hve mjög veiran dreifi sér en áréttar enn og aftur að mynstrið sem sést hafi í vinnubúðum Munck verktakafyrirtækisins bendi til að afbrigðið sé mjög smitandi.

Enginn hefur greinst með COVID-19 á Grænlandi frá því á þriðjudaginn en á næstu dögum verður haldið áfram að skima fyrir smitum hjá fólki sem var á kaffihúsi í Nuuk og fjölmennri fermingarveislu á laugardag en þaðan er talið að uppruna smitanna megi rekja að hluta.