Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir Vinstriflokkinn feta hættulega slóð

17.06.2021 - 19:45
Mynd: EPA-EFE / TT NEWS AGENCY
Forsætisráðherra Svíþjóðar segir þá stjórnmálaflokka sem hyggjast styðja vantrauststillögu gegn honum leiða sænsku þjóðina á hættulega braut. Sænska þingið greiðir atkvæði um tillöguna á mánudag og búist er við að hún verði samþykkt.

Aldrei áður hefur tekið jafn langan tíma að mynda ríkisstjórn í Svíþjóð líkt og eftir síðustu kosningar. Svíar gengu til þingkosninga 9. september 2018 en það var ekki fyrr en 18. janúar 2019 sem sænska þingið samþykkti Stefan Löfven sem forsætisráðherra. Ríkisstjórnin í Svíþjóð samanstendur af Jafnaðarmannaflokki Löfvens og Græningjum. Þeir flokkar hafa einungis um 33 prósent atkvæða á bak við sig en þingmenn Miðflokksins, Frjálslynda flokksins og Vinstriflokksins samþykktu að verja hana falli - þangað til í dag. 

„Það er ekki auðvelt að segja þetta hér í dag. Ég skil það mætavel. En einhver verður að taka málstað leigjenda í Svíþjóð,“ tilkynnti Nooshi Dadgostar, leiðtogi Vinstriflokksins, á blaðamannafundi í dag. Deilan snýst í meginatriðum um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að aflétta verðþaki á húsaleigu í nýju húsnæði. Dadgostar segir að með þessari ákvörðun sinni hafi ríkisstjórnin svikið sænska velferðarlíkanið. 

Greiða atkvæði um vanstrauststillögu á mánudag

Þessu vísar forsætisráðherrann á bug. „Ég ver sænska módelið hvern einasta dag vikunnar og það nær svo sannarlega til húsnæðismarkaðarins líka. Vinstriflokkurinn ásamt íhaldsmönnum fetar hættulega slóð og einkum þar sem þessir fjórir flokkar eru hvorki sammála né hafa sameiginlega stefnu fyrir Svíþjóð fram á veginn,“ sagði Stefan Löfven á fundi með fréttamönnum í dag. 

Auk Vinstriflokksins styðja Kristilegir Demókratar og hægri flokkurinn Moderaterna vantraust og skömmu eftir ávarp Vinstriflokksins tilkynntu Svíþjóðardemókratar, sem er flokkur lengst til hægri og allir aðrir flokkar höfnuðu samstarfi við fyrir síðustu kosningar, að þeir væru búnir að leggja fram vantrauststillögu. Sænska þingið greiðir atkvæði um hana á mánudagsmorgun. „Þessir fjórir flokkar eru skuldbundnir sænsku þjóðinni til að koma með skýran valkost um ríkisstjórn. Þeir sem hafa lagt upp í þessa vegferð sem er hættuleg fyrir þjóðina, þar sem aðstæður eru þannig að þörf er á meira samstarfi og endrægni,“ sagð Löfven.