Mikil gleði á 17. júní og HÍ tilkynnti um Vigdísarsafn

Mynd: RÚV / Skjáskot

Mikil gleði á 17. júní og HÍ tilkynnti um Vigdísarsafn

17.06.2021 - 20:24

Höfundar

Þjóðhátíðardeginum hefur verið fagnað um allt land í dag en samkomutakmarknir hafa þó sett hátíðahöldum ýmsar skorður. Margt var þó á sínum stað; forseti Íslands lagði blómsveig að minnisvarða Jóns Sigurðssonar, fjallkonur stigu á stokk og ræður voru fluttar. Þá fagnaði Háskóli Íslands 110 ára afmæli og Vigdís Finnbogadóttir gaf skólanum gjafir.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar undirrituðu yfirlýsingu í hátíðasal Háskóla Íslands í morgun um að setja á fót sýningu um forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur. Við það tækifæri færði Vigdís háskólanum sverð, sem hún fékk er hún var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við háskólann í Tampere í Finnlandi. Hún sagðist vonast til að sýningin myndi hvetja ungt fólk til dáða. „Fátt gæti glatt mig meira en ef þessi gjöf yrði ungu fólki innblástur,“ sagði Vigdís.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sagði að Vigdís væri fremst meðal jafningja í hópi hollvina skólans. Hann sagði að safnið myndi vekja athygli á glæsilegu ævistarfi Vigdísar. „En saga hennar er líka mjög samofin sögu Háskóla Íslands og líka íslensks samfélags,“ sagði Jón Atli.

En það var víðar fagnað en í Háskóla Íslands, þó að 300 manna samkomutakmarkanir hafi sett hátíðahöldum ýmsar skorður. Haldnar voru hverfahátíðir og fólk var hvatt til að setja upp eigin þjóðhátíð með ættingjum og vinum.  Akureyringar gengu í skrúðgöngu í lystigarðinn þar sem haldin var hátíðardagskrá og blómlegur bíll ók um götur bæjarins. 

Reykvíkingar söfnuðust víða saman, meðal annars á Klambratúni og í Hljómskálagarðinum.