Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Landsliðsmaður Mjanmar leitar hælis í Japan

17.06.2021 - 01:38
epaselect epa08997904 Demonstrators flash the three-finger salute  next to a portrait of detained Myanmar State Counselor Aung San Suu Kyi during a protest against the military coup, in Yangon, Myanmar, 09 February 2021. Thousands of people continued to rally in Yangon despite stern warnings from the military after days of mass protests. Orders were issued on 08 February in major cities and townships banning people from protesting or gathering in groups of more than five. A nighttime curfew was also imposed. Myanmar's military seized power and declared a state of emergency for one year after arresting State Counselor Aung San Suu Kyi, the country's president and other political figures in an early morning raid on 01 February.  EPA-EFE/LYNN BO BO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Varamarkmaður knattspyrnulandsliðs Mjanmar hefur leitað hælis í Japan. Pyae Lyan Aung notaði merki andstæðinga valdaránsins í heimalandi hans meðan þjóðsöngurinn var fluttur fyrir landsleik gegn Japan í síðasta mánuði. Hann óttast hið versta snúi hann aftur til Mjanmar.

Mikil upplausn hefur ríkt í Mjanmar frá því að herinn rændi þar völdum í febrúar síðastliðnum. Andstæðingar herforingjastjórnarinnar segja að yfir 800 liggi í valnum og þúsundir hafi særst í átökum innanlands.

Pyae Lyan Aung neitaði í gærkvöld að stíga um borð í flugvél í Osaka sem átti að flytja hann og liðsfélaga hans heim til Mjanmar. AFP fréttaveitan hefur eftir þarlendum fréttastofum að markmaðurinn hafi sagst óttast um líf sítt sneri hann aftur heim.

Hann kallar eftir stuðningi ríkisstjórnar Japans sem hann segir að hljóti að þekkja ástandið í Mjanmar. Pyae Lyan Aung segist því ekki ætla að hverfa heim á ný fyrr en Aung San Suu Kyi tekur á ný við völdum.

Hann sagðist þó myndu hætt á handtöku við það að fara til Mjanmar kæmist hann að því að liðsfélögum hans eða fjölskyldu hafi verið gert mein vegna ákvörðunar hans.

Engin viðbrögð hafa enn komið frá japönskum yfirvöldum en þegar hefur íbúum Mjanmar sem þar dvelja verið leyft að framlengja dvölina.