Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kórónuveirukreppan hætt að bíta á Nýja Sjálandi

New Zealand Prime Minister Jacinda Ardern answers questions during a press conference in Christchurch, New Zealand, Wednesday, Oct. 14, 2020. Opinion polls indicate Ardern is on track to win a second term as prime minister in an election on Saturday. (AP Photo/Mark Baker)
 Mynd: AP
Hagvöxtur á Nýja Sjálandi á fyrsta fjórðungi ársins nemur um 1,6% sem er betra en búist hafði verið við. Upphafleg spá gerði ráð fyrir um hálfs prósents vexti mánuðina janúar til mars en samdráttur var um 1% á síðasta fjórðungi ársins 2020.

Greinendur segja athafnasemi þjóðarbúsins vera nærri því sem var áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Hagvöxt er hægt að útskýra sem mælanlega aukningu í framleiðslu vara og þjónustu frá einu tímabili til annars.

Samkvæmt tölum Hagstofu Nýja Sjálands þýða framangreindar tölur að hagkerfið stækkaði um 2,4% á tólf mánaða tímabili, frá marsmánuði 2021 til mars 2021.

Helsti hvati vaxtarins er kaup almennings á þjónustu margskonar og dýrari vörum á borð við sjónvörp og bíla.

Vel hefur tekist að halda aftur af útbreiðslu COVID-19 á Nýja Sjálandi, fá eða engin smit hafa komið upp undanfarið og samkomutakmarkanir eru í lágmarki. Fram til þessa hafa 26 látist af völdum faraldursins í landinu en Nýsjálendingar eru fimm milljónir talsins.

Þrátt fyrir nokkuð bakslag um mitt síðasta ár hefur AFP fréttaveitan eftir Jarrod Kerr, aðalhagfræðingi Kiwibankans, að fjörug viðskipti landsmanna hafi bætt upp fyrir samdrátt í ferðamennsku og komum erlendra námsmanna.

Hann segir jafnframt mikla eftirspurn eftir húsnæði sem hefur glætt byggingaframkvæmdir sem nemur ríflega sex af hundraði. Viðmiðunarvextir hafa numið 0.25% frá því í mars 2020. 

Að öllu framangreindu metnu telur Kerr að búast megi við því að seðlabanki landsins breyti peningastefnu sinni en þó varla fyrr en í maí á næsta ári.