Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Koma á fót Hringrásargarði á Suðurnesjum

17.06.2021 - 19:07
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Sveitarfélögin á Suðurnesjum, og tíu fyrirtæki þar, skrifuðu í gær undir viljayfirlýsingu um að koma á fót Hringrásargarði á Suðurnesjum. Garðinum er ætlað að auka sjálfbærni á svæðinu og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi.

„Það sem eitt fyrirtæki lætur frá sér sem úrgang getur annað fyrirtæki notað sem hráefni hjá sér. Nú þarf að setja þetta saman og vonandi gerir það það að verkum að það verður enginn úrgangur eftir heldur aðeins nýtanlegar afurðir,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.

Fyrirtæki kynntu ýmis verkefni á fundinum sem hafa talsverð áhrif á samfélagið á Suðurnesjum. „Í fyrsta lagi fjölbreytnin sem er algjört lykilatriði og í öðru lagi er náttúrulega verið að horfa mjög mikið á grænar lausnir sem er mikilvægt til þess að við getum náð okkar loftslagsmarkmiðum og okkar markmiðum í umhverfismálum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Meðal þess sem stendur til að gera er að byggja hátæknisorpstöð í Helguvík. „Þau hráefni og nýju auðlindir sem spretta upp úr því eru ekki bara fjölbreytt störf og verðmæti sem skapast heldur erum við þá að nýta auðlindir með grænni fjárfestingu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. 

Hann bindur vonir við að verkefnin stuðli að fjölbreyttara atvinnulífi á Suðurnesjum, þar sem atvinnuleysi var mikið í faraldrinum þar sem margir eru í störfum tengdum flugvellinum.

„Atvinnulífið hérna er of einhæft, of háð ferðaþjónustunni og fluginu. Vex auðvitað mjög hratt og mun vonandi gera það núna en alltof, alltof háð miðað við hvað þetta er stórt svæði,“ segir Sigurður Ingi.

Störfum hefur þó fjölgað á Suðurnesjum samhliða afléttingum og meiri ferðalögum á milli landa undanfarið. „Framtíðin er björt eins og við sjáum núna næstu mánuði. Við erum hins vegar viðbúin því þegar fer að hausta og vetra að þá aukist atvinnuleysi á staðnum en við erum að vinna í því að fjölga atvinnutækifærum og það tekur tvö, þrjú, fjögur ár kannski,“ segir Kjartan Már.