Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hæsta sekt sem fyrirtæki hefur fengið fyrir samráð

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Forstjóri Eimskips segir hafa verið farsælast að ná sátt við Samkeppniseftirlitið um greiðslu langhæstu sektar sem lögð hefur verið á fyrirtæki fyrir samkeppnislagabrot. Hann segir sektina rífa í, en félagið standi vel.

Eimskip og Samkeppniseftirlitið undirrituðu sátt í gær þar sem Eimskip viðurkennir að hafa brotið samkeppnislög með samráði við Samskip á árunum 2008-2013. 

„Svona máli fylgir óvissa, það var mat okkar að farsælast væri að ná sátt í málinu sem að við höfum nú gert. Við höfum verið á vegferð á undanförnum árum að gera breytingar á rekstrinum, það fara nýir aðaleigendur fyrir félaginu í dag og við höfum verið að breyta stjórnarháttum,“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.

Eimskip er gert að greiða einn og hálfan milljarð í sekt og þarf að grípa til aðgerða til að vinna gegn því að brot endurtaki sig. Eimskip viðurkennir alvarleg samráðsbrot í sex liðum; miðlun á mikilvægum verð- og viðskiptaupplýsingum, breytingar á siglingakerfum og takmörkun á flutningsgetu til og frá Íslandi og aðgerðir sem miðuðu að því að raska samkeppni í flutningsþjónustu svo eitthvað sé nefnt. Þá viðurkennir Eimskip að ólögmætt samráð hafi verið fyrir hendi fyrir árið 2008 en í minna mæli. „Það mun eiga sér samtal við eftirlitið núna í kjölfarið um leiðbeiningar til okkar og föngum við því einfaldlega að fá leiðbeiningar og það mun gera okkur auðveldara fyrir í rekstrinum fram á við.“

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins gat ekki tjáð sig um málið enda er málið enn til úrlausnar hvað varðar Samskip.

Sektin rífi í en reksturinn standi vel

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á málinu hefur staðið í um átta ár og er án fordæma. Þá hefur fyrirtæki ekki þurft að greiða hærri sekt hérlendis hingað til vegna brota á samkeppnislögum. Sektin er um milljarði yfir hæstu sektinni til þessa, það var Olís sem var gert að greiða 560 milljónir fyrir tæplega tuttugu árum vegna samráðs við Olíufélagið og Skeljung sem þurftu að greiða 500 milljónir hvor um sig. Þá er sekt Eimskips nú hæsta sáttarsamkomulag sem Samkeppniseftirlitið hefur gert. 

Hvaða áhrif hefur þessi háa sekt á reksturinn? „Hún hefur neikvæð fjárhagsleg áhrif og rífur vissulega í. En engu að síður stendur félagið vel.“

Nú varst þú ekki forstjóri þegar þetta átti sér stað, en sem núverandi forstjóri, finnst þér að fyrirtækið þurfi að biðjast afsökunar? „Það er í sjálfu sér erfitt fyrir mig. Þetta er gamalt mál. Ég hef leitt fyrirtækið í rétt rúm tvö ár, það var hagsmunamat þeirra sem fara fyrir félaginu núna, mitt og stjórnarinnar að ljúka málinu með sátt og erum þá að greiða sekt í ríkissjóð og teljum málinu þar með lokið.“