Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjórar konur vinna saman í rafmagni

17.06.2021 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Hjá fyrirtæki á Akureyri starfa fjórar konur við raf- og rafeindavirkjun. Þó konum hafi fjölgað talsvert í karllægum iðngreinum síðustu ár má það þó enn teljast óvenjulegt.

Kvenna- og karlastörf

Undanfarin ár hefur konum í karllægum iðn- og verkgreinum fjölgað. Það hefur þó gerst mjög hægt og í sumum greinum eru konur örfáar. Farið hefur verið í ýmsar herferðir síðustu ár til að auka hlut kvenna í hefðbundnum karlastörfum til að mynda kvennastarf. Þar er vísað til mýtu sem flestir kannast við um að eðlilegt sé að starfsgreinar flokkist í kvennastörf og karlastörf. Markmiðið er að eyða þessari mýtu. Kynferði eigi ekki að þurfa að hafa áhrif á námsval eða starfsvettvang. Bæði konur og karlar eigi að geta starfað við það sem þeim sýnist.

Kvenrafvirkjar

Það þykir því enn draga til tíðinda þegar fjórar konur starfa við rafvirkjun hjá sama fyrirtækinu og það á við um Rafmenn á Akureyri. Það eru ekki margar konur sem hafa lagt fyrir sig raf- og rafeindavirkjun. Af þeim sem hafa útskrifast með sveinspróf í rafvirkjun og rafeindavirkjun á Íslandi eru konur eingöngu 1-2 prósent. Inga Rakel Pálsdóttir, rafvirki, og Anna Kristveig Arnardóttir, rafvirki og rafeindavirki hjá Rafmönnum, segja að þær upplifi mikinn áhuga fólks á starfi sínu. Þær finni ekki fyrir því að það þyki skrítið að vera kona og rafvirki þó vissulega sé það ekki algengt. Í rauninni finnst þeim ekki að það ætti að skipta máli hvort rafvirki er kona eða karl. Í iðninni þurfi ekki mikinn líkamlegan kraft og jafnvel geti stundum verið gott að vera kvenkyns. Það eigi til dæmis við þegar vinna þarf í litlum rafmagnsdósum sem minni fingur eiga auðveldara með að komast að. Eins eru kvenkyns rafvirkjar velkomnari í búningsklefa kvenna í sundi en rafvirkjar af karlkyni. 

Mynd með færslu
 Mynd: Harpa B. Hjarðar - RÚV
Anna Kristveig Arnardóttir, Heiðrún Harpa Helgadóttir og Inga Rakel Pálsdóttir

Sýnileikinn mikilvægastur

Inga Rakel og Anna Kristveig segja að það sé mikilvægt að konur í iðngreinum séu sýnilegar. Með því að þær séu sýnilegar gefi það þá mynd af störfum í iðngreinum að þau séu opin fyrir öllum, óháð kyni. Það hefur áhrif að hafa kvenfyrirmyndir til að sýna stelpum að þær geti valið sér það starf sem þeim þykir áhugavert án þess að samfélagslegar staðalmyndir spili inn í valið. 

Markmið að hafa jafnara kynjahlutfall

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari við Verkmenntaskólann á Akureyri, segir að umsóknum kvenna í hafi fjölgað í karllægar iðngreinar við skólann frá árunum 2017-2019 en fækkaði svo aftur árið 2020. Hún telur að faraldurinn gæti hafa haft þar áhrif því vegna samkomutakmarkana var erfiðara að sinna kynningarmálum. Skólinn hefur almennt reynt að fá fleiri nemendur til að velja iðngreinar en hafa líka sérstaklega reynt að fá fleiri konur í hefðbundnar karlagreinar og öfugt. Skólinn hefur tekið þátt í sérstökum átaksverkefnum til að rétta af kynjahlutföll í ákveðnum námsgreinum meðal annars í samstarfi við Jafnréttisstofu. Skólayfirvöld hafa unnið markvisst að því að laga kynjabilið og sjá það sem ávinning fyrir alla að fólk leiti sér menntunar óháð því hvaða kynjastaðalmyndir séu í samfélaginu.