Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Talmeinafræðingar telja lausn Sjúkratrygginga ómögulega

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Deila talmeinafræðinga og Sjúkratrygginga Íslands er enn í hnút og óvíst hvort yfir 60 börn missa talmeinafræðinga sína á Akureyri vegna kröfu um tveggja ára starfsreynslu. Talmeinafræðingar telja að lausn sem Sjúkratryggingar bjóða séu þvingunaraðgerðir.

Yfir 60 börn hafa fengið þjónustu hjá tveimur nýútskrifuðuð talmeinafræðingum á Akureyri undir handleiðslu reyndari talmeinafræðinga. Að óbreyttu stefnir í að þau þurfi aftur á biðlista því sjúkratryggingar niðurgreiða ekki þjónustu talmeinafræðinga strax eftir útskrift. Fyrst þurfa þeir að ná sér í tveggja ára starfsreynslu. Talmeinafræðingarnir hafa fengið að sinna börnunum hálft ár á svokölluðu handleiðslutímabili undir umsjón reyndari talmeinafræðings á sömu stofu. Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands boðaði lausn í málinu og bauð fyrirtækjasamning við sjúkratryggingar í stað þess að samningur yrði gerður við einstaka talmeinafræðinga.

Félag talmeinafræðinga sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þessari lausn er hafnað. Í yfirlýsingunni segir að við nánari skoðun hafi komið í ljós að þessir fyrirtækjasamningar henti ekki. Krafa sé um að minnst tveir, jafnvel þrír, reynslumeiri séu á stofunni. Slíku sé ekki til að dreifa hjá einyrkjum úti á landi. Sí gera kröfur um ákveðið starfshlutfall reyndra talmeinfræðinga til að geta tekið inn nýliða. 80% talmeinfræðinga með reynslu á móti 20% óreyndra. Félagið lítur á að þetta sem þvingunaraðgerðir af hálfu Sjúkratrygginga. Talmeinafræðingar vilja standa saman og losna við kröfuna um tveggja ára starfsreynslu frekar en að einstaka stofur samþykki fyrirtækjasamning. Stofan á Akureyri hefur aðeins fengið drög að fyrirtækjasamningi og hefur ekki ákveðið hvort hann verður samþykktur. 

Fram kom hjá forstjóra Sjúkratrygginga að ekki sé til fjármagn til að byrja að greiða fyrir þjónustu allra talmeinafræðinga sem ekki hafa náð tveggja ára starfsreynslu. Talmeinafræðingar telja að sá kostnaður sé ofmetinn. Í yfirlýsingu Félags talmeinafræðinga segir að stjórnvöld verði gera ráð fyrir þessari þjónustu í fjárlögum. Annars líði börn og aðrir skjólstæðingar talmeinafræðinga áfram fyrir skort á þjónustunni.