Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segir nýja flugstöð hafa mjög hvetjandi áhrif

16.06.2021 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Ákvörðun um að byggja nýja flugstöð á Akureyrarflugvelli hefur mjög hvetjandi áhrif á markaðssetningu og möguleika á beinu flugi þangað frá útlöndum. Verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Norðurlands segir faraldurinn þó enn hafa þar mikil áhrif.

Framkvæmdir við nýja flugstöðvarbyggingu á Akureyrarflugvelli verða boðnar út fyrir júnílok, en fyrsta skóflustungan í gær markar upphaf tveggja ára framkvæmdatíma á vellunum. Ferðaþjónustan hefur lengi kallað eftir nýrri flugstöð og telur hana einn af lykilþáttum þess að geta byggt upp reglubundið flug til og frá útlöndum. 

„Svona áfangar hafa gríðarlega mikið að segja“

„Svona áfangar hafa gríðarlega mikið að segja,“ segir Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Norðurlands. „Því þetta eru skilaboð út í heim til okkar viðsemjenda, getum við sagt, ferðaskrifstofa eða flugfélaga, að hér sé verið að byggja upp til framtíðar og hér eigi að verða framtíðaráfangastaður. Og þau skilaboð eru gríðarlega mikilvæg inn í þessi samtöl okkar.“

Faraldurinn hafði mikil áhrif á viðræður

Kórónuveirufaraldurinn hafði mikil áhrif á störf við þessa markaðssetningu en Hjalti segir að þau hafi verið komin í mjög áhugaverðar viðræður við erlendar ferðaskrifstofur þegar faraldurinn braust út. „Við höfum haft hér ferðaskrifstofu frá Hollandi sem hefur staðið fyrir flugi. Var búin að fljúga hér bæði sumar- og vetrartímabil áður en heimsfaraldurinn skall á. Það er gaman að segja frá því að þau ætla að halda ótrauð áfram frá og með næsta vetrartímabili. Og við höfum verið markvisst að leita að slíkum aðilum í fleiri löndum.“

Erlendar ferðaskrifstofur enn hálfvængbrotnar 

Þar finni þau fyrir miklum áhuga en enn þá séu áhrifin af faraldrinum mikil og erlendar ferðaskrifstofur hálfvængbrotnar, eins og hann orðar það. „Okkar vonir standa auðvitað til að það sem ekki gengur einn, tveir og þrír núna, að það séu möguleg tækifæri lengra inn í framtíðina.“