
Segir flugstjórann hafa neyðst til að lenda í Minsk
Breska ríkisútvarpið hefur eftir Michael O'Leary forstjóra flugfélagsins að flugstjórinn hafi verið varaður við að sprengja yrði gerð virk um borð í vélinni héldi hann för áfram til Litháen eða reyndi að lenda í Vilníus en þangað var för vélarinnar heitið.
O'Leary útskýrði sjónarmið flugfélagsins fyrir breskri þingnefnd í gær og segir að flugstjórinn hafi ítrekað ætlað að leita liðsinnis skrifstofu flugfélagsins í Póllandi en að hvítrússnesk yfirvöld hafi gefið honum rangar upplýsingar um að ekki væri svarað í síma á þeirri skrifstofu.
Venjan mun vera sú að flugvélum í vanda á þessum slóðum sé snúið til Póllands eða einhvers Eystrasaltsríkjanna. Þotan var á leið frá Aþenu í Grikklandi til Vilníus eins og áður sagði
Flugstjóranum var ekki gefinn annar kostur en að lenda í Minsk og því er forstjórinn þungorður í garð Hvítrússa og segir að þeir hafi brotið alþjóðlegar flugreglur undir fölsku yfirskini og af yfirlögðu ráði.
Tilgangurinn hafi verið að handtaka blaðamanninn Roman Protasevich og Sofiu Sapega unnustu hans, en auk þeirra hafi þrír aðrir horfið frá borði sem álitið er að hafi verið útsendarar leyniþjónustu.
O'Leary segir einnig að eftir lendingu hafi verið þrýst á áhöfnina að staðfesta að vélinni hafi verið lent í Minsk af fúsum og frjálsum vilja en að hvert og eitt þeirra hafi hafnað því.
Stjórnvöld í Hvítrússlandi þvertaka fyrir að flugvélin hafi verið neydd til að lenda. Daginn áður en O'Leary ræddi við bresku þingnefndina staðhæfði Igor Golub yfirmaður hvítrússneska flughersins á blaðamannafundi að engum þrýstingi hefði verið beitt við að fá flugstjórann til að lenda í Minsk.