Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ófært að leggja Rannsóknarstofu Byggingariðnaðar af

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rannsóknarstofa byggingariðnaðarins verður lögð niður fyrsta júlí. Sérfræðingur í rakaskemmdum telur það ófært. Fjöldi nýrra byggingarefna streymi inn í landið og fylgjast þurfi með hvernig þau reynast. Það varði okkur öll að húsin okkar séu í lagi.

Ný umfangsmikil könnun, sem gerð var á líðan vegna rakaskemmda, í samvinnu Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, sýnir fram á að tæp 6 prósent húsráðenda finni fyrir vanlíðan sem oftast má rekja til rakavandamála. Björn Marteinsson, sérfræðingur hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem hafði umsjón með könnuninni, segir að tíðni rakavandamála sé í samræmi við fyrri rannsóknir. Vandamálin séu tíð og aukist eftir því sem hús eldist.

Spurt um líðan

Nú var í fyrsta sinn spurt um líðan fólks í húsunum. Svör fengust frá 2200 heimilum á höfuðborgarsvæðinu. Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir sérfræðingur í rakaskemmdum segir húsnæði oft þétt á röngum stöðum. Ekki sé nóg að gera við ytra byrði húsanna. Huga þurfi að innviðunum og einnig að lofta mun betur út. Rakaskemmdir eru í hátt í tuttugu prósentum nýrra húsa. 
Vandamálið snýr ekki hvað síst að því að viðhaldi hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Mikilvægt sé að tryggja reglur um húsbyggingar og að þeim sé fylgt eftir. Ný efni, aðferðir og útfærslur flæði nú inn í landið. Mikilvægt sé að óháð fagfólk kanni efni og aðferðir við íslenskar aðstæður. Áskorun næstu ára felist meðal annars í að verið sé að byggja með nýjum efnum sem við vitum ekki endilega hvernig þoli íslenskar aðstæður.

Hvað tekur við?

Sylgja Dögg segir óljóst hvað tekur við þegar Rannsóknarstofa byggingariðnaðarins verður lögð niður um næstu mánaðamót. Hún spyr hvernig standi á því að einn stærsti iðnaður landsins sem framleiði eina mikilvægustu afurð sem við nýtum, sem eru húsin okkar og okkar skjól, verði lagður niður fyrsta júlí. Óljóst virðist hvað taki við.