Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

New York og Kalifornía slaka á samkomutakmörkunum

epa09275089 Pedestrians walk and shop without wearing face masks on the boardwalk next to the ocean as California drops most of its restrictions put in place in response to the COVID-19 pandemic, in Venice Beach, California, USA, 15 June 2021.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
New York og Kalifornía, tvö fjölmennustu ríki Bandaríkjanna, hafa dregið mjög úr samkomutakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins. Enn er þó viðbúið að nokkrir mánuðir þurfi að líða áður en lífið færist í svipað form og fyrir faraldurinn.

Yfirvöld beggja ríkja tilkynntu þessa ákvörðun í gær vegna þess að sjötíu prósent fullorðinna hafa þegar fengið fyrstu sprautu með bóluefni gegn COVID-19.

New York Times greinir frá þessu en faraldurinn lagðist mjög þungt á ríkin tvö og þar komu fyrstu smit Bandaríkjanna upp snemma á síðasta ári. Andrew M. Cuomo, ríkisstjóri New York-ríkis, var sigri hrósandi þegar hann tilkynnti afléttingarnar í gær og sagði daginn verða eftirminnilegan.

Nú þurfi íbúar ríkisins ekki lengur að láta mæla hitastig sitt þegar þeir ganga inn í atvinnuhúsnæði, ekki þurfa lengur að vera tveir metrar milli borða á veitingahúsum og kvikmyndahús mega leyfa gestum sínum að sitja í hverju einasta sæti.

„Þetta er afturhvarf til lífsins eins og við þekkjum það,“ sagði Cuomo. Kollegi hans á vesturströndinni, Gavin Newsom ákvað að nefna þriðjudaginn „dag enduropnunarinnar“ en þar í ríki verða tilslakanir með svipuðum hætti og á austurströndinni.

Í báðum ríkjum verður farið að reglum Smitsjúkdómavarna Bandaríkjanna um grímunotkun áfram, en óbólusettum er gert að bera grímur innanhúss og viðhalda fjarlægðarmörkum.

Strangari grímureglur gilda í fangelsum, heilbrigðisstofnunum, skýlum fyrir heimilislausa, í skólum og almenningssamgöngum. Fyrirtækjum verður í sjálfsvald sett hvort þau heimila bólusettu fólki að ganga um grímulaust.

Þrátt fyrir mikinn fögnuð á austur- og vesturströnd Bandaríkjanna geta íbúar ríkjanna tveggja enn þurft að bíða nokkra mánuði áður en þar verður jafn mikið um að vera og áður en faraldurinn skall á.