Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Mikilvægt að byggja upp á Akureyri og Egilsstöðum

Mynd með færslu
Frá athöfn við fyrstu skóflustungu að flugstöðvarbyggingu á Akureyri  Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Samgönguráðherra segir að uppbygging á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sé meðal lykilþátta í millilandaflugi við mótun flugstefnu stjórnvalda. Hann tók í gær fyrstu skóflustungu að nýrri flugstöðvarbyggingu á Akureyrarflugvelli.

Stækkun flugstöðvar og nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli, ásamt akbraut og flughlaði á Egilsstaðaflugvelli, var hluti af sérstökum efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins. 1.100 fermetra viðbygging við flugstöðina á Akureyri verður boðin út fyrir mánaðamót í kjölfar útboðs á neðra burðarlagi flughlaðs.

Full fjármagnað verkefni á Akureyri til tveggja ára

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, ræsti tveggja ára framkvæmdaferli á Akureyri með fyrstu skóflustungu í gær. Hann segir þetta mikinn áfanga og ánægjulegt að geta tekið þátt í þessum viðburði. „Þetta er full fjármagnað og það er komin framkvæmdaáætlun sem stendur þá yfir næstu 24 mánuði. Hér eftir tvö ár verður þá komin glæsileg ný flugstöð með betra flughlaði.“

Frekari uppbygging á Egilsstöðum hluti af flugstefnu

Malbik á flugbrautinni á Egilsstaðaflugvelli verður endurnýjað í sumar ásamt akstursleið inn á núverandi flughlað. Lengra er í frekari framkvæmdir þar og íbúar og fyrirtæki á Austurlandi hafa lengi kvartað yfir seinagangi við þá uppbyggingu. „Við erum að vinna að flugstefnu, sem er þá orðinn hluti  af samgönguáætlun, og þar inni er semsagt enn frekari uppbygging á Egilsstöðum. Það er að segja uppbygging á akbraut og flughlaði,“ segir Sigurður Ingi. „Það er verk sem krefst ákveðinna breytinga á skipulagi og hönnun e rekki komin eins langt. Þannig að eftir svona 3-4 ár gæti farið að hylla undir það.“

„Mjög arðsamar framkvæmdir sem munu skila miklu“ 

Hann telur það hafa verið rétta ákvörðun hjá stjórnvöldum þegar framkvæmdir á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum urðu hluti af fjárfestingaráformum vegna faraldursins. „Ég held að við höfum nýtt það tækifæri vel til þess að forgangsraða mjög arðbærum framkvæmdum í innanlandsfluginu. Sem tengist auðvitað millilandafluginu í gegnum varaflugvallahlutverkið og opnar þessa viðbótar fluggátt. Og þetta eru mjög arðsamar framkvæmdir sem munu skila miklu.“