Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Maðurinn kominn úr lífshættu eftir hnífsstungu

16.06.2021 - 14:07
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Maðurinn sem stunginn var með hnífi í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt sunnudags er kominn úr lífshættu.

Honum hafði verið haldið sofandi á gjörgæsludeild Landspítalans frá því að árásin átti sér stað. Í fréttatilkynningu frá lögreglu kemur fram að rætt verði við manninn þegar ástand hans leyfir. 

Árásin var gerð fyrir utan veitingastaðinn Fjallkonuna við Ingólfstorg og gerðist í kjölfar átaka sem urðu á milli manna. Rúmlega tvítugur karlmaður, sem grunaður er um verkið, var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur síðdegis á sunnudag og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudags. 

Í tilkynningu lögreglu segir að rannsókn málsins miði annars vel, en ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.